Innlent

Eignarnám heimilað vegna Kröflulínu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur heimilað Landsneti hf. að framkvæma eignarnám vegna lagningar Kröflulína 4 og 5.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur heimilað Landsneti hf. að framkvæma eignarnám vegna lagningar Kröflulína 4 og 5. Fréttablaðið/Stefán

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur heimilað Landsneti hf. að framkvæma eignarnám á tilteknum landsréttindum í óskiptu landi jarðarinnar Reykjahlíðar vegna lagningar Kröflulína 4 og 5.

Háspennulínurnar liggja frá Kröflu að Þeistareykjum og þaðan að iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Þar segir að eignarmámsbeiðnin hafi verið til meðhöndlunar í ráðuneytinu frá því í september 2015. Ráðuneytið hafi með hliðsjón af dómum sem féllu í vor vegna Suðurnesjalínu 2 tali að rannsaka þyrfti betur möguleika á því að leggja viðkomandi raflínur í jörðu.

Ráðuneytið hafi því óskað eftir frekari upplýsingum frá Landsneti um samanburð á valkostum og barst ráðuneytinu skýrsla þess efnis sem send var í framhaldinu í rýni hjá tveimur sérfróðum aðilum auk Orkustofnunar.

„Þegar þau gögn lágu fyrir var skorað á eignarnámsbeiðanda og landeigendur að skoða málið í ljósi nýrra upplýsinga og freista þess að nýju að ná samningum. Eftir þessa áskorun náðust samningar við þrjá landeigendur til viðbótar og því var eignarnámsbeiðni hvað þá varðar dregin til baka 19. ágúst síðastliðinn.

Eftir ítarlega gagnaöflun og rannsókn ráðuneytisins á öllum málavöxtum og sjónarmiðum eignarnámsbeiðanda og eignarnámsþola telur ráðuneytið að málið sé nægilega upplýst til ákvörðunar og að öll lagaskilyrði fyrir heimild til eignarnáms séu fyrir hendi. Var því í dag gefin út ákvörðun um að heimila eignarnám á því landi sem um ræðir,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×