Fótbolti

Viðar Örn: Reiknaði með að byrja

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Viðar Örn kom inn á þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.
Viðar Örn kom inn á þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. vísir/anton
Viðar Örn Kjartansson hefur verið duglegur að skora með félagsliðum sínum en bíður eftir tækifæri í byrjunarliði íslenska landsliðsins.

Viðar Örn kom inn á sem varamaður þegar Ísland lagði Finnland 3-2 í kvöld en segist hafa búist við því að byrja leikinn.

„Mér fannst mjög svekkjandi að byrja á bekknum. Ég reiknaði með að byrja þennan leik ef ég á að vera hreinskilinn. Ég var mjög svekktur yfir því, ég neita því ekki.

„Í stöðunni 2-1 fékk ég að koma inn á, í mjög erfiðri stöðu en það var gott að fá að koma inn á,“ sagði Viðar sem náði ekki að skora en íslenska liðið skoraði tvö mörk og tryggði sér sigurinn eftir að hann kom inn á.

„Það er svo sem ekki mikið sem ég get gert. Ég slepp ágætlega frá mínu. Mér finnst ég koma með orku inn í leikinn og trú. Við erum að leita eftir mörkum og það þarf að berjast í þeim til að skora þessi mörk og mér fannst við gera það ágætlega.

„Ég er að spila mitt besta tímabil til þessa en það er þjálfaranna að velja í liðið og ég vonast eftir meira tækifæri á sunnudaginn,“ sagði Viðar Örn.

Viðar Örn hældi karakternum í íslenska liðinu sem skoraði tvö mörk á síðustu mínútum leiksins og tryggði sér mikilvægan sigur.

„Við vildum þetta bara. Það var erfitt að brjóta þá á bak aftur en við sýndum mikinn karakter og settum í aðeins hærri gír í restina. Það sást vel á okkur að við vildum vinna þennan leik og uppskárum það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×