Fótbolti

Aron Einar tæpur fyrir næstu landsleiki Íslands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson er tæpur vegna meiðsla.
Aron Einar Gunnarsson er tæpur vegna meiðsla. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, er í kapphlaupi við tímann ef hann ætlar að ná næstu landsleikjum strákanna okkar í undankeppni HM 2018.

Fram kemur á 433.is að fyrirliðinn er tognaður í kálfa en hann mun ekki spila með Cardiff í B-deildinni á Englandi gegn Derby á morgun og ólíklegt er að hann verði með gegn Burton á laugaradginn.

Aron Einar kemur til móts við íslenska landsliðið á sunnudaginn en æfingar fyrir næstu leiki hefjast á mánduaginn. Ísland á tvo leiki fyrir höndum á fimmtudag og sunnudag í næstu viku gegn Finnlandi og Tyrklandi hér heima.

„Ég er jákvæður fyrir því að ná leiknum við Finnland,“ segir Aron Einar vongóður í samtali við 433.is en ekki þarf að ítreka mikilvægi miðjumannsins fyrir íslenska landsliðið.

Aron Einar tognaði í leik gegn Leeds fyrir rúmri viku. Auk Arons er óvíst hvort Kolbeinn Sigþórsson verði með en framherjinn meiddist fyrir leikinn gegn Úkraínu í síðasta mánuði og er ekki enn farinn af stað með félagsliði sínu Galatasaray í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×