Erlent

Áhorfendur CNN telja Clinton hafa haft betur í kappræðunum í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump og Hillary Clinton í kappræðunum í nótt.
Donald Trump og Hillary Clinton í kappræðunum í nótt. vísir/getty
Hillary Clinton hafði betur í fyrstu sjónvarpskappræðum hennar og Donald Trump í gærkvöldi að mati áhorfenda CNN. Clinton er forsetaframbjóðandi Demókrata og Trump sækist eftir embættinu fyrir hönd Repúblikana en forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram þann 8. nóvember næstkomandi.

Talið er líklegt að metfjöldi hafi horft á kappræðurnar eða allt að 100 milljónir áhorfenda. Skömmu eftir að kappræðunum lauk gerði CNN könnun á meðal áhorfenda sinna hvor frambjóðandinn hafði betur og það var engin spurning; 62 próesnt aðspurðra sögðu Clinton hafa unnið kappræðurnar á meðan 27 prósent sögðu Trump hafa borið sigur úr býtum.

Í umfjöllun CNN um könnunina kemur fram að 41 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni voru Demókratar og 26 prósent Repúblikanar sem er 10 prósentum meira af Demókrötum en venjulega í könnunum og tvö prósent minna af Repúblikönum. Engu að síður er niðurstaðan nokkuð afgerandi Hillary í vil. Eftir fyrstu kappræðurnar á milli þeirra Barack Obama og Mitt Romney árið 2012 var niðurstaðan svipuð úr fyrstu könnun en þá mátu áhorfendur það sem svo að Romney hefði haft betur.

Þau Clinton og Trump tókust á um ýmislegt í gær, meðal annars atvinnuhorfur, utanríkisstefnu og kynjamisrétti svo fátt eitt sé nefnt en kappræðurnar stóðu í níutíu mínútur. Baráttan harðnaði þegar farið var út í persónuleg málefni til að mynda þegar Trump sakaði Hillary um að vera ekki með rétta geðslagið í það að verða forseti Bandaríkjanna. Clinton skaut einnig á Trump með því að benda á að honum hafi láðst að gera skattagögn sín opinber.

Kappræðurnar í heild sinni má sjá hér að neðan en þær hefjast þegar um ein klukkustund og 45 mínútur eru eftir af útsendingunni.


Tengdar fréttir

Stefnir í einn stærsta sjónvarpsviðburð sögunnar

Fyrstu kappræðurnar milli forsetaframbjóðendanna Hillary Clinton og Donald Trump fara fram í Bandaríkjunum í kvöld og stefna í að verða einn stærsti sjónvarpsviðburður sögunnar. Mikil spenna ríkir fyrir þeim enda er mjótt á munum milli frambjóðendanna og líklegt er að frammistaða þeirra í sjónvarpi muni ráða úrslitum í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×