Innlent

Segir ásakanirnar hafa verið hraktar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson kynntu skýrsluna í gær.
Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson kynntu skýrsluna í gær. Fréttablaðið/Ernir
„Þetta eru ásakanir og stóryrði sem hafa verið sett fram áður af Vigdísi og Víglundi Þorsteinssyni,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, um nýja skýrslu meirihluta fjárlaganefndar.

Í tilkynningu sem Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sendi fjölmiðlum vegna útgáfu skýrslunnar segir að hún varpi „ljósi á seinni einkavæðingu bankanna“. Þar segir að skýrslan taki af allan vafa um áhættu skattgreiðenda þegar kröfuhafar tóku yfir eignarhluti í Íslandsbanka og Arion. Ríkissjóður hafi tekið á sig 296 milljarða króna áhættu í þágu kröfuhafa bankanna.

Steingrímur segir að fjallað hafi verið um þessar ásakanir fimm eða sex sinnum. „Það er skemmst frá að segja að fram til þessa hefur þetta allt verið hrakið.“

Steingrímur segir að fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið hafi séð ástæðu til að senda frá sér tilkynningar á fyrri stigum þar sem mismunandi þættir í ásökununum séu hraktir

„Síðan auðvitað líka ágæt skýrsla frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem Brynjar Níelsson leiddi vinnuna,“ segir Steingrímur, „þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að lög hafi verið brotin eða að ekki hafi verið farið eðlilega að í þessum tilvikum.“

„Það er umhugsunarefni fyrir Alþingi að þegar svona mál hefur verið til umfjöllunar í þar til bærri nefnd, hún lokið sinni vinnu, að þá spretti upp formaður og varaformaður í annarri nefnd,“ segir Steingrímur. Formaður og varaformaður fjárlaganefndar geri ekkert með fyrri vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar heldur haldi vinnu sinni áfram út frá eigin forsendum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×