Innlent

Líkfundur við Öskju: Áverkar mannsins og vettvangur útiloka að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað

Gissur Sigurðsson skrifar
Líkið fannst á leiðinni frá Öskju niður í Dyngjufjalladal.
Líkið fannst á leiðinni frá Öskju niður í Dyngjufjalladal. Vísir/GVA

Dánarorsök erlenda ferðamannsins sem fannst látinn við Öskju í gær verða ljós við krufningu í Reykjavík. Hvenær hún fer fram er ekki ljóst á þessari stundu en lögreglan segir ekkert benda til þess að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Það var franskur ferðamaður sem gekk fram á líkið nánast rétt utan öskjunnar á leiðinni frá Öskju niður í Dyngjufjalladal, en slæmt göngufæri í kargahrauni, að sögn Hreiðars Hreiðarssonar varðstjóra hjá lögreglunni á Húsavík, sem fer með rannsóknina. Kallað var eftir aðstoð björgunarsveitarmanna úr Mývatnssveit til að flytja líkið til byggða, með aðstoð þjóðgarðsvarðar og lögreglu, og var það vistað í kapellu á Húsavík í nótt.

Maðurinn var á miðjum aldri, en þjóðerni , eða nánari deili á manninum eru ekki gefin upp að svo stöddu þar sem starfsfólk viðkomandi sendiráðs hér á landi er að hafa upp á ættingjum mannsins. Að öðru leyti vill lögregla ekki tjá sig um málið að svo stöddu, nema hvað maðurinn var einn á ferð og skaplegt veður var á fundarstað þegar líkið fannst.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík er erfitt að áætla hvenær maðurinn dó, en útiloka þó að það sé lengra en mánuður. Áverkar mannsins og vettvangurinn útiloka að mati lögreglunnar á dauða mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.