Innlent

Líkfundur við Öskju: Áverkar mannsins og vettvangur útiloka að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað

Gissur Sigurðsson skrifar
Líkið fannst á leiðinni frá Öskju niður í Dyngjufjalladal.
Líkið fannst á leiðinni frá Öskju niður í Dyngjufjalladal. Vísir/GVA
Dánarorsök erlenda ferðamannsins sem fannst látinn við Öskju í gær verða ljós við krufningu í Reykjavík. Hvenær hún fer fram er ekki ljóst á þessari stundu en lögreglan segir ekkert benda til þess að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Það var franskur ferðamaður sem gekk fram á líkið nánast rétt utan öskjunnar á leiðinni frá Öskju niður í Dyngjufjalladal, en slæmt göngufæri í kargahrauni, að sögn Hreiðars Hreiðarssonar varðstjóra hjá lögreglunni á Húsavík, sem fer með rannsóknina. Kallað var eftir aðstoð björgunarsveitarmanna úr Mývatnssveit til að flytja líkið til byggða, með aðstoð þjóðgarðsvarðar og lögreglu, og var það vistað í kapellu á Húsavík í nótt.

Maðurinn var á miðjum aldri, en þjóðerni , eða nánari deili á manninum eru ekki gefin upp að svo stöddu þar sem starfsfólk viðkomandi sendiráðs hér á landi er að hafa upp á ættingjum mannsins. Að öðru leyti vill lögregla ekki tjá sig um málið að svo stöddu, nema hvað maðurinn var einn á ferð og skaplegt veður var á fundarstað þegar líkið fannst.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík er erfitt að áætla hvenær maðurinn dó, en útiloka þó að það sé lengra en mánuður. Áverkar mannsins og vettvangurinn útiloka að mati lögreglunnar á dauða mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×