Erlent

Segja Snowden hafa valdið gífurlegum skaða

Samúel Karl Ólason skrifar
Edward Snowden.
Edward Snowden. Vísir/EPA
Bandarísk þingnefnd segir uppljóstrarann Edward Snowden hafa valdið gífurlegum skaða á þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Í nýlegri skýrslu sem nefndin vann segja þeir Snowden hafa logið til um bakgrunn sinn og hafa rifist mikið við samstarfsmenn sína.

Hann hafi í raun ekki verið göfugur uppljóstrari og þess í stað eingöngu verið fúll út í starfsveitendur sína.

„Edward Snowden er engin hetja. Hann er svikari sem sveik samstarfsmenn sína og þjóð vísvitandi,“ sagði Devin Nunes, formaður nefndarinnar.

Hávær köll heyrast nú í Bandaríkjunum þar sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er beðinn um að náða Snowden. Mannréttindasamtök eins og Amnesty International og Human Rights Watch hafa kallað eftir náðun Snowden.

Blaðamaður Guardian ræddi nýverið við Snowden um af hverju Obama ætti að náða hann. Uppljóstrarinn flúði til Rússlands eftir að þúsundir leyniskjala sem hann stal frá NSA voru birt opinberlega.

Þeir ræddu einnig um kvikmyndina Snowden eftir Oliver Stone, sem frumsýnd er í dag.

Í skýrslunni, sem unnin var af þingmönnum bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins, segir að stærstur hluti þeirra gagna sem Snowden hafi stolið frá NSA hafi ekki snúið að brotum yfirvalda Bandaríkjanna og Bretlands gegn friðhelgi einkalífs borgara. Þess í stað hafi þau snúið að upplýsingaröflunar- og varnarmálaverkefnum sem andstæðingar Bandaríkjanna hafi sýnt mikinn áhuga.

Þingnefndin hefur ekki birt skýrsluna í heild sinni, samkvæmt Reuters, heldur hafa einungis niðurstöður nefndarinnar verið birtar.

Í skýrslunni er ekki gengið svo langt að kalla Snowden lygalaup, en þess í stað segir að hann hafi verið og sé enn mikið fyrir að ýkja og að búa til sögur. Því er haldið fram að hann hafi logið til um af hverju hann komst ekki í gegnum grunnþjálfun í her Bandaríkjanna, að hann hafi logið til um menntun sína og starfstitil hjá NSA.

Þá segir í skýrslunni að hann hafi stolið einni og hálfri milljón leyniskjala. Reuters segir hins vegar að aðilar sem hafi farið yfir gögnin sem Snowden lét fjölmiðla fá að um tvö til þrjú hundruð þúsund skjöl hafi verið að ræða.

Þá er því haldið fram að hann hafi stolið gögnunum tveimur vikum eftir að hann hafi verið ávíttur í starfi fyrir að rífast við yfirmenn sína í júní 2012.

Ekki að íhuga náðun Snowden

Sjálfur segir Snowden að skýrslan sé ekki upp á marga fiska og eftir tveggja ára rannsókn þingmanna, eigi bandaríska þjóðin betra skilið. Hann segir að þingnefndin hafi í raun varið tveimur árum í að skrifa skýrslu til að reyna að fá fólk til að horfa ekki á kvikmynd Oliver Stone.

Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, segir að Obama íhugi ekki að náða Snowden.

„Framferði hans ógnaði lífum Bandaríkjamanna og þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Þess vegna er það stefna ríkisstjórnar Obama að Snowden ætti að snúa aftur til Bandaríkjanna og mæta þeim alvarlegu ákærum sem lagðar hafa verið fram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×