Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: FH - Valur 1-1 | Fögnuður FH verður að bíða | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaplakrika skrifar
Atli Guðnason lagði upp mark FH.
Atli Guðnason lagði upp mark FH. vísir/eyþór
FH tókst ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þegar liðið fékk Val í heimsókn í Kaplakrika í fyrsta leik 20. umferðar Pepsi-deildar karla í dag. Lokatölur 1-1.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Kaplakrika og tók meðfylgjandi myndir.

Með sigri hefði FH tryggt sér áttunda Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins en það verður einhver bið á því.

Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val yfir með marki úr vítaspyrnu á 19. mínútu og Valsmenn voru lengi vel líklegri til að gera annað mark en FH-ingar að jafna.

Heimamenn tóku leikinn yfir síðustu 20 mínúturnar og Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin á 83. mínútu með góðu skoti eftir sendingu Atla Guðnasonar.

Kristján Flóki var svo hársbreidd frá því að tryggja FH sigurinn þegar aukaspyrnu hans small í slánni á 91. mínútu.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.

Af hverju varð jafntefli?

Valsmenn nýttu ekki færin sín nógu vel. Bæði voru þeir klaufar og einnig átti Gunnar Nielsen góðan dag. Rolf Toft og Andri Adolphsson fengu báðir frábær færi í síðari hálfleik en brást bogalistin. Það hefði verið erfitt fyrir FH að koma til baka tveimur mörkum undir gegn þessu öfluga Valsliði.

Það vantaði ákefð og kraft í lið FH-inga í dag. Það var ekki fyrr en í lokin að liðið náði að sýna sitt rétta andlit - að þarna væri að spila lið sem með sigri hefði tryggt sér Íslandsmeistaratitlinn. Frammistaða FH-inga í fyrri hálfleik miðað við það sem var í húfi var langt frá því að vera ásættanleg fyrir Hafnfirðinga.

Þessir stóðu upp úr

Gunnar átti góðan dag í marki FH-inga og það lá mikið á varnarmönnum Hafnfirðinga stærstan hluta leiks. Þeir mega vera ánægðir með að hafa fengið aðeins eitt mark á sig í dag. Kristinn Freyr Sigurðsson var hættulegur eins og svo oft áður í sumar en hann hefur engu að síður átt betri leiki en í dag. Andri Adolphsson var kraftmikill á kantinum og þá spilaði Rolf Toft ágætlega.

Hvað gekk illa?

FH-ingar náði ekki upp neinu alvöru spili á löngum köflum í leiknum og sóknarmennirnir Kristján Flóki og Steven Lennon voru þá ekki í takti við leikinn. Það hefði enginn velt því mikið fyrir sér ef Heimir Guðjónsson hefði ákveðið að taka Kristján Flóka af velli fremur en Lennon en sá fyrrnefndi átti eftir að launa traustið með því að skora jöfnunarmarkið auk þess sem hann var hársbreidd að skora sigurmarkið.

Valsmenn hefðu sem fyrr segir átt að nýta færin sín betur en heilt yfir voru lærisveinar Ólafs Jóhannessonar betri aðilinn í leiknum. En góð lið eins og FH kunna þá list vel að refsa andstæðingum sínum fyrir að nýta ekki færin sín.

Hvað gerist næst?

FH þarf að bíða og sjá hvað Fjölnir og Breiðablik gera í sínum leikjum. Ef annað liðið vinnur sinn leik þarf FH að bíða þar til á sunnudag með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Þá á FH leik gegn Víkingi í Fossvoginum.

Valsmenn geta ekki lengur náð FH að stigum og fara til ÍBV í næstu umferð en Eyjamenn eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Valur er þar að auki með öruggt sæti í Evrópukeppninni og hefur því ekki að neinu að keppa nema stoltinu.

Ólafur: Förum til Eyja á þriðjudag

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir að hans menn fengu fleiri færi til að vinna FH í dag en öfugt. Liðin skildu jöfn, 1-1, en með sigri hefði FH tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Við fengum betri færi til að vinna leikinn og eigum að landa svona leik. En það gekk ekki,“ sagði Ólafur sem vildi sjá meiri dug í sínum mönnum.

„Ég held að við þorum ekki að fara í leikinn og vinna hann. Við gátum tekið skynsamlegri ákvarðanir á þeirra vallarhelmingi og menn vildu frekar reyna að gera eitthvað sjálfir en að spila boltanum. Við vorum smeykir.“

Ólafur breytti byrjunarliði sínu nokkuð í dag frá 3-0 tapleiknum gegn Breiðabliki og fékk það sem hann átti von á frá FH-ingum.

„Ég hélt reyndar að hann myndi fara í 4-3-3 en FH var í 4-4-2. Það eru svo sem engin leyndarmál enda er fótboltinn orðinn þannig að við vitum allt um öll lið. Og þau vita allt um okkur. Þetta er því bara spurning um dagsform leikmanna.“

„Mér fannst þetta reyndar frábær leikur tveggja frábærra liða. Ég hefði gjarnan viljað fá meira úr honum,“ segir Ólafur sem mætir ÍBV í Vestmannaeyjum í næsta leik, á sunnudag.

„Ætli við förum ekki á þriðjudaginn þangað, svo það verði ekkert vesen. Þetta er orðin svo skemmtileg umræða,“ sagði Ólafur og vísaði til þess er fresta varð leik ÍBV og Stjörnunnar á fimmtudag.

Heimir: Titillinn mun ekki falla í kjöltuna okkar

FH varð af tækifæri til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í dag er liðið gerði 1-1 jafntefli við Val á heimavelli sínum.

Sigur hefði fært FH titilinn en liðið verðu nú að bíða annað hvort eftir hagstæðum úrslitum í þessari umferð eða til næsta sunnudags er FH mætir Víkingi Reykjavík á útivelli.

Valsmenn komust yfir í leiknum en Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin í síðari hálfleik. Hann átti svo skot í slá í blálok leiksins.

„Við fengum þrjá góða möguleika til að tryggja okkur sigur hér í restina. En ég held að við getum verið sáttir við niðurstöðuna. Valsararnir voru góðir í þessum leik og Gunnar Nielsen varði nokkrum sinnum vel,“ sagði Heimir.

Hann segir að það hafi verið sama saga í dag og í síðustu leikjum. FH-ingar hafi ekki verið að byrja leikina nægilega vel.

„Mér fannst við reyndar ágætir fyrstu tíu mínúturnar en þegar Valsmenn komu á okkur þá datt botninn úr okkur. Skiptingarnar okkar lífguðu upp á leikinn og það hefði verið gaman að klára þetta. En það er ljóst að við þurfum að spila betur í næsta leik en við gerðum í dag.“

Hann játar að hann hefði viljað sjá meiri ákefð í liði Hafnfirðinga. „Á köflum. En við verðum líka að átta okkur á því að Valsmenn eru með afar öflugt lið og hafa verið að spila mjög vel síðustu vikur. Þetta eru vonbrigði, við hefðum viljað klára þetta á heimavelli fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn.“

„Við verðum bara gjöra svo vel að halda áfram og klára þennan titil. Hann mun ekki falla í kjöltuna okkar.“

Davíð: Þigg alla þá hjálp sem við fáum

Davíð Þór Viðarsson, þjálfari FH, segir að hans menn hafi verið lélegir í fyrri hálfleiknum gegn Val í dag.

„En náðum að vinna okkur inn í leikinn í síðari hálfleik. Við hefðum getað stolið þessu í lokin en ég held að jafntefli eru sanngjörn úrslit,“ segir Davíð.

„Þetta var vandamál gegn Breiðabliki og gegn Fylki. Við vorum ekki nógu nálægt mönnunum okkar og eins og það væri eitthvað stress á okkur. Við þurfum að vinna í þessu og átta okkur á því að þessir leikir gefa okkur jafn mörg stig í fyrstu umferðinni.“

FH þarf nú að bíða eftir úrslitum í öðrum leikjum í þessari umferð til að sjá hvort að liðið verði meistari nú eða þá með sigri á Víkingi Reykjavík í næstu umferð.

„Auðvitað væri það spes að vinna titilinn heima í sófanum á morgun en ég þigg alla þá hjálp sem við fáum fyrst við kláruðum ekki þetta í dag.“

Kristján Flóki: Mætum dýrvitlausir í næsta leik

Kristján Flóki Finnbogason skoraði jöfnunarmark FH gegn Val í dag og var nálægt því að tryggja hans mönnum sigur og þar með Íslandsmeistaratitilinn en skot hans í blálok leiksins hafnaði í slánni.

„Það hefði verið mjög sætt að sjá boltann liggja inni í lokin. En það gerðist ekki og við mætum dýrvitlausir í næsta leik,“ sagði hann.

„Svona er þetta stundum. Þetta var ekki okkar dagur. Við náðum ekki að klára leikinn nógu vel.“

„Það vantaði ekkert upp á stemninguna í dag. Það var allt í föstum skorðum hjá okkur en því miður þá bara gekk þetta ekki að þessu sinni.“

Vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×