Fótbolti

Ísland leikur að minnsta kosti í þremur borgum í Hollandi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tímabært að skipuleggja ferð á EM 2017
Tímabært að skipuleggja ferð á EM 2017 vísir/anton
Eins og greint hefur verið frá tryggði íslenska kvennalandsliðið sér í gær farseðilinn í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í fótbolta sem fram fer í Hollandi næsta sumar.

Fyrir leikina í gær höfðu sjö þjóðir tryggt sér sæti í úrslitakeppninni auk gestgjafa Hollands. Frakkland, Þýskaland, Sviss, England, Noregur, Spánn og Svíþjóð.

Ísland, auk Skotlands og Belgíu, bættist í hóp þeirra þjóða sem verða í pottinum þegar dregið verður í riðla í lokakeppninni 8. nóvember í Rotterdam.

Keppt verður í fjórum fjögurra liða riðlum í lokakeppninni en að lokinni undankeppninni ræðst í hvaða styrkleikaflokki Ísland lendir.

Leikið verður í sjö borgum í lokakeppninni, Breda, Enschede, Utrecht, Rotterdam, Deventer, Tilburg og Doetinchem. Stærsti leikvangurinn er De Grolsch Veste í Enschede og þar verður úrslitaleikurinn leikinn.

Riðlakeppnin verður leikin í hinum sex borgunum og verður leikjunum dreift á milli borga líkt og gert var á Evrópumeistaramóti karlalandsliða í Frakklandi í sumar. Ísland mun því leika leikina þrjá í riðlinum í þremur borgum.

Undankeppnin lýkur á þriðjudaginn þegar Ísland tekur á móti Skotlandi klukkan 17 á Laugardalsvelli. Ísland er með mun betri markatölu en Skotland og þarf Skotland að vinna sex marka sigur til að vinna riðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×