Innlent

Sigmundur Davíð á ekki von á fleiri mótframboðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi.
Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi. Vísir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, reiknar ekki með því að fleiri framboð berist gegn honum í embætti formanns flokksins á flokksþingi sem fram fer 1.-2. október.

„Ég á ekki endilega von á því,“ sagði Sigmundur Davíð en hann var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. „Flestir þeirra sem hafa verið í forystu flokksins hafa lýst því yfir, ýmist við mig eða opinberlega eða hvort tveggja, að þeir muni ekki bjóða sig fram gegn mér.“

Eitt framboð hefur þegar komið fram frá Sveinbirni Eyjólfssyni, forstöðumanni Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands. Sigmundur Davíð hlaut afgerandi forystu í efsta sæti lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og sagði hann í gær í viðtali við Vísi að sigurinn gæfi honum aukinn kraft fyrir flokksþingið og Alþingiskosningarnar sem framundan eru.

Sigmundur Davíð var einnig spurður um fréttir af því að Sigurður Ingi Jóhannson, forsætisráðherra og formaður flokksins, myndi ekki gegna embætti í forystu flokksins yrði hún óbreytt. Sagðist Sigmundur ekki vilja segja mikið um það annað en að hann og Sigurður Ingi hafi átt gott samstarf frá því að Sigmundur kom fyrst inn í stjórnmálin.

„Þar er verið að túlka ummæli hans á lokuðum fundi í flokknum. Ég treysti mér ekki til þess að lesa í þessa túlkun sem ég er ekki alveg viss um að sé rétt. Við Sigurður Ingi höfum starfað saman frá því að ég byrjaði í stjórnmálum og það hefur gengið vel. Við hljótum því að finna út úr öllu þessu saman.“


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð með yfirburðarkosningu í fyrsta sæti

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk 72 prósent greiddra atkvæða í vali Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi á framboðslista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×