Innlent

Yfirburðasigur formannsins í Norðausturkjördæmi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Formaður Framsóknarflokksins segist finna fyrir miklum stuðningi innan flokks sem utan og er bjartsýnn á gengi sitt í formannskjöri og flokksins fyrir næstu kosningar. Hann var kosinn til forystu í kjördæmi sínu í dag með yfirburðar fylgi. En Höskuldur Þórhallsson sem einnig sóttist eftir sætinu hefur ekki trú á framhaldinu og yfirgaf kjördæmisþing eftir að hafa tapað fyrir formanninum.Mikil spenna var fyrir kjördæmaþingi Framsóknarmanna á Norðausturlandi í dag. Um 370 Framsóknarmenn eru skráðir í félögin í kjördæminu. 238 þeirra mættu á kjördæmaþingið til þess að greiða atkvæði um oddvita sætið. Svæðið er heimavígi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins en þrír aðrir þingmenn buðu sig fram gegn honum á þinginu.Úrslitin um oddvitasætið í Norðausturkjördæmi Framsóknarmanna voru tilkynnt hér á Skjólbrekku í Mývatnssveit laust fyrir klukkan eitt í dag. Þar kom í ljós að Sigmundur Davíð fékk yfirburðarkosningu en Höskuldur Þórhallsson óskaði ekki eftir öðru sæti á listanum.Niðurstaðan í kosningu um fyrsta sætið var á þessa leið:Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 170 atkvæði eða 72,34%

Þórunn Egilsdóttir hafnaði í öðru sæti með 39 atkvæði eða 16,60%

Höskuldur Þórhallsson lenti í þriðja sæti með 24 atkvæði eða 10,21%

og Líneik Anna Sævarsdóttir fékk einungis 2 atkvæði eða 0,85%.

Auðir og ógildir seðlar voru þrír.Eftir að úrslit lágu fyrir tilkynnti Höskuldur að hann myndi ekki gefa kost á sér í annað sæti á listanum og í framhaldinu yfirgaf hann fundinn„Niðurstaðan liggur fyrir en hún var vissulega vonbrigði,“ sagði Höskuldur Þórhallsson.Afhverju ákvaðstu að taka ekki annað sæti á listanum?„Vegna þess að ég hef ekki trú á framhaldinu. Það er nú bara einföld ástæða fyrir því,“ sagði Höskuldur.Höfuðvígi Höskuldar í kjördæminu er Akureyrarsvæðið en dræm mæting þaðan var á þingið.„Fólk hafði einhvern veginn ekki trú á því sem væri í gangi í flokknum,“ sagði Höskuldur.Niðurstaða kosninganna voru afgerandi fyrir Sigmund Davíð og mun betri en hann átti von á.„Þetta var töluvert meiri stuðningur heldur en fyrir fjórum árum og þá voru bara tveir í framboði um fyrsta sætið. Þannig að ég er bara fyrst og fremst gríðarlega þakklátur og hlakka núna til framhaldsins, hlakka til kosningabaráttunnar ég held að þetta muni hjálpa okkur í þeirri baráttu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.Styrkir þetta stöðu þína í formannsframboðinu?„Ég á ekki von á öðru en að þetta heldur hjálpi til með það. Það hefði verið verra ef þetta hefði farið á hinn veginn hér,“ sagði Sigmundur.Og niðurstaðan á kjördæmaþinginu eftir að kosið hafði verið í öll sæti er á þessa leið:

1. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

2. Þórunn Egilsdóttir

3. Líneik Anna Sævarsdóttir

4. Sigfús Karlsson

5. Margrét Jónsdóttir„Já ég er bjartsýnn bæði á flokksþingið hjá okkur þó maður taki ekki neinu sem gefnu í pólitíkinni,“ segir Sigmundur.Hefur verið rætt við þig eða þrýst á þig að draga formannsframboðið til baka?„Það eru auðvitað aldrei allir sammála um neinn í stjórnmálum og það hafa aldrei allir verið sammála um mig, hvorki í mínum flokki né í samfélaginu almennt þannig að það eru alltaf einhverjir sem vilja hafa einhvern annan í þessari stöðu og það er ekkert nýtt,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.