Fótbolti

Sautján ára undrabarn spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Ítalíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donnarumma ver skot í sínum fyrsta landsleik.
Donnarumma ver skot í sínum fyrsta landsleik. vísir/getty
Hinn 17 ára Gianluigi Donnarumma, markvörður AC Milan, lék sinn fyrsta landsleik þegar Ítalía mætti Frakklandi í vináttulandsleik í Bari í kvöld.

Þessi gríðarlega efnilegi markvörður kom inn á í hálfleik fyrir hinn þrautreynda Gianluigi Buffon. Þess má geta að Buffon lék sinn fyrsta landsleik árið 1997, tveimur árum áður en Donnaruma kom í heiminn.

Þessum öflugu markvörðum tókst þó ekki að koma í veg fyrir tap fyrir silfurliðinu frá EM 2016.

Anthony Martial kom Frökkum yfir á 17. mínútu með sínu fyrsta landsliðsmarki. Forystan entist þó aðeins í fjórar mínútur því á 21. mínútu jafnaði Graziano Pellé metin.

Sjö mínútum síðar komust Frakkar aftur yfir þegar Oliver Giroud skoraði sitt ellefta mark í síðustu þrettán landsleikjum sínum.

Vinstri bakvörðurinn Layvin Kurzawa, sem lagði upp markið fyrir Giroud, skoraði svo þriðja mark Frakka níu mínútum fyrir leikslok og gulltryggði sigurinn. Lokatölur 1-3, Frakklandi í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×