Fótbolti

Engir áhorfendur á næst stærsta velli í Austur-Evrópu

Arnar Björnsson skrifar
Ólympíuleikvangurinn í Kænugarði er mikið mannvirki, næst stærsti íþróttavöllur í Austur-Evrópu, tekur 70 þúsund manns í sæti, aðeins Lushniki völlurinn í Mosvku er stærri.

En það verður ekki þörf fyrir svona stóran völl á mánudagskvöldið þegar Úkraínumenn mæta Íslendingum í fyrsta leiknum í undankeppni HM.

Úkrænumenn súpa nú seyðið af slæmri hegðun áhorfenda fótboltaleikjum. Í lokaleik undankeppni síðasta Evrópumóts, þegar Úkraínumenn töpuðu fyrir Spánverjum á þessum velli, viðhöfðu áhorfendur kynþáttaníð og beindu lasergeislum að leikmönnum spænska liðsins.

Siða- og aganefnd UEFA, Evrópska knattspyrnusambandsins, felldi þann dóm að engir áhorfendur mættu vera á næsta heimaleik liðsins í alþjóðlegri keppni og FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið staðfesti dóminn.

Úkraínska landsliðið hefur ekki spilað á heimavelli síðan þessi dómur var felldur og því taka þeir út refsinguna gegn Íslendingum á mánudag. Það má reikna með því að það verði gestkvæmt hjá þeim sem búa á efstu hæðinni í blokkinni við hliðina á vellinum, líklega verða þeir sem þar verða þeir einu sem fá að fylgjast með leiknum fyrir utan nokkra blaðamenn.

Íslensku landsliðsmennirnir komu til Kænugarðs í dag eftir að hafa æft í Þýskalandi undanfarna daga. Liðið æfir á þessum velli á morgun en það verður eina æfing liðsins í Kænugarði áður en kemur að leiknum á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×