Fótbolti

Þjálfari Kósovó veit ekki hvaða leikmenn hann má nota

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Avni Pepa er í kósovóska hópnum.
Avni Pepa er í kósovóska hópnum. vísir/hanna
Albert Bunjaki, þjálfari Kósovó, er í erfiðri stöðu. Hann veit nefnilega ekki hvaða leikmenn hann getur notað í leiknum gegn Finnlandi á morgun en þessi lið eru með Íslandi í riðli í undankeppni HM 2018.

Kósovó, sem fékk aðild að FIFA í maí, tekur núna í fyrsta sinn þátt í undankeppni stórmóts.

Nokkrir leikmenn sem hafa leikið fyrir önnur landslið hafa sóst eftir því að leika fyrir Kósovó. Þeir hafa hins vegar ekki allir fengið samþykki hjá FIFA.

Talað er um að sex leikmenn bíði eftir staðfestingu frá FIFA sem setur Bunjaki í erfiða stöðu.

„Það eru sex leikmenn sem ég er ekki viss hvort ég geti notað,“ sagði Bunjaki.

„Leikmennirnir eru klárir í slaginn en það eina sem er óþægilegt er að vita ekki hvaða leikmenn mega spila. Við búumst við svörum á mánudaginn,“ bætti þjálfarinn við.

Leikmennirnir sex sem um ræðir eru:

Amir Rrahmani - 22 ára miðvörður

Alban Meha - 30 ára miðvörður

Herolind Shala - 24 ára miðjumaður

Milot Rashica - 20 ára miðjumaður

Samir Ujkani - 28 ára markvörður

Valon Berisha - 23 ára miðjumaður

Þeir fimm fyrstnefndu hafa spilað landsleiki fyrir Albaníu en Berisha á 19 leiki að baki fyrir norska landsliðið.

Kósovó hefur leikið einn landsleik síðan landið varð hluti af FIFA. Kósovó vann þá 2-0 sigur á Færeyjum í vináttulandsleik í byrjun júní.

Þess má geta að Avni Pepa, fyrirliði ÍBV, er í kósovóska hópnum.

Ísland mætir Kósovó á útivelli 24. mars á næsta ári. Heimaleikurinn er svo 9. október sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×