Fótbolti

Zinchenko: Verður baráttuleikur

Arnar Björnsson í Kænugarði skrifar
Oleksandr Zinchenko er ein af framtíðarstjörnum úkraínska landsliðsins. Manchester City keypti þennan 19 ára strák af UFA í sumar og lánaði hann til PSV Eindhoven í Hollandi skömmu áður en lokað var á félagaskipti.  

Ég hitti hann á æfingu í gær og spurði hann um leikinn.  

„Auðvitað verður þetta erfiður leikur fyrir okkur vegna þess að íslenska liðið stóð sig vel á EM í Frakklandi í sumar. Þetta verður baráttuleikur en við erum að búa til nýtt lið og ég vona að úrslitin verði hagstæð fyrir okkur í leiknum,“ sagði Zinchenko.

Hann veit ekki hvort hann verður í byrjunarliðinu í kvöld. „Samkeppnin er mikil um sæti i liðinu.“

Zinchenko hóf ferilinn hjá Shaktar Donetsk en lék með UFA í Rússlandi á síðustu leiktíð.  

Hann hefur spilað með öllum yngri landsliðum Úkraínu, lék alla þrjá leikina á EM í sumar og er búinn að spila 6 leiki og skora eitt mark.  

Í maí tók hann metið af núverandi þjálfara, Andriy Shevchenko, sem yngsti markaskorari landsliðsins. Þá skoraði hann í sigri á Rúmenum skömmu fyrir Evrópumótið. Hann var aðeins búinn að vera í tvo daga í Hollandi áður en hann kom til liðs við úkraínska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×