Innlent

Tilkynntu Bjarna ákvörðun sína í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Eins og fram hefur komið í dag eru þau Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gengin til liðs við Viðreisn. Þorgerður og Þorsteinn mættu í viðtal hjá fréttastofu um ákvörðunina, sem sjá má hér að ofan.

Þau segja bæði að ákvörðunin sé ekki áfellisdómur yfir Sjálfstæðisflokknum og segja þess í stað hafa litið til þess sem Viðreisn bjóði upp á og hverju sé hægt að stuðla að innan flokksins.

„Ég lít ekki á þetta sem klofning frá Sjálfstæðisflokknum heldur einfaldlega er verið að finna farveg fyrir frjálslyndu öflin til þess að þeirra sjónarmið heyrist aðeins hærra en hefur verið á umliðnum misserum,“ sagði Þorgerður.

Þau sögðust hafa tilkynnt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðunina í dag.

Aðspurður hvort að þau væri að senda Sjálfstæðisflokknum ákveðin skilaboð segir Þorsteinn það vera „út af fyrir sig rétt“.

„Smám saman hefur verið að opnast um miðju stjórnmálanna ákveðið tómarúm. Við teljum mikilvægt að það verði fyllt og okkur sýnist að það sé að gerast með þessu,“ sagði Þorsteinn.

„Þú getur ekki fengið, allavega mig og ég veit ekki Þorstein, til þess að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki tilgangurinn með þessu,“ sagði Þorgerður. „Við einfaldlega erum að segja að Viðreisn sé ákveðið afl sem ætlar að halda áfram og ýta undir þessi frjálslyndu gildi sem við viljum styðja. Þetta snýst ekki um Sjáflstæðisflokkinn. Þetta snýst um Viðreisn.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.