Erlent

Trump vill Kalda stríðs kannanir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donald Trump í ræðustól í Ohio á mánudag.
Donald Trump í ræðustól í Ohio á mánudag. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, vill láta kanna skoðanir allra innflytjenda til Bandaríkjanna til að útiloka að þeir séu hlynntir hryðjuverkasamtökum eða hafi fjandsamleg viðhorf í garð Bandaríkjanna.

Hann líkti þessu við „hugmyndafræðilega bakgrunnskönnun” sem stunduð var í Bandaríkjunum á tímum kalda stríðsins, en sagðist sjálfur kalla þetta öfgakönnun.

„Við ættum ekki að hleypa neinum inn í landið nema þeim sem aðhyllast gildismat okkar,” sagði hann í ræðu á mánudag þar sem hann gerði grein fyrir áformum sínum um að loka landinu fyrir öllu fólki, sem hugsanlega gæti reynst hættulegt.

„Strax og ég tek við embætti þá mun ég biðja utanríkisráðuneytið og heimavarnaráðuneytið um að gera lista yfir þau svæði, þar sem ekki er hægt að kanna einstaklinga nægilega vel,” sagði Trump í ræðu sinni. „Við munum hætta að afgreiða vegabréfsáritanir frá þessum svæðum þangað til ætla má að það verði óhætt í ljósi nýrra aðstæðna eða nýrra aðferða.”

Í leiðara bandaríska dagblaðsins The New York Times segir að ræðan hafi átt að sýna hve vel Trump sé í stakk búinn til að stjórna landinu. Honum hafi hins vegar ekki tekist vel upp:

„Ræðan var langt frá því að vera skýr greining á þeirri ógn sem stafar af íslömskum öfgamönnum og hugsanleg áætlun um aðgerðir, heldur var hún samsafn af ruglingslegum og tilviljanakenndum hugmyndum sem sýndu ekki mikinn skilning á uppgangi Íslamska ríkisins og rákust oft á við sögulegar staðreyndir,” segir í leiðaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×