Erlent

Gawker verður lokað í næstu viku

Birgir Olgeirsson skrifar
Bandaríska fréttavefnum Gawker verður lokað í næstu viku. Þetta var tilkynnt í dag en aðeins nokkrir dagar eru síðan Univision keypti vefinn.  Í færslu á vef Gawker segir stofnandi fréttavefsins, Nick Denton, frá því að hann hafi tilkynnt starfsfólki þetta á fundi í dag.

Fjölmiðlafyrirtækið Univision hafði keypt útgáfufélagið Gawker Media á 135 milljónir dollara á uppboði í kjölfar gjaldþrots vefsins.

Gawker óskaði eftir gjaldþrotaskiptum þegar ljóst var að það hafði tapað skaðabótamáli sem fjölbragðaglímukappinn Hulk Hogan höfðaði gegn miðlinum. Fyrir það fékk Hogan að launum 140 milljónir Bandaríkjadala, sem nemur um 16 milljörðum íslenskra króna.

Stofnandi Paypal, Peter Thiel, fjármagnaði málshöfðun Hogans og sagði ástæðuna þá að hann vildi lækka rostann í Gawker sem hann taldi hafa lagt fólk í einelti. Gawker hafði meðal annars birt grein um Peter Thiel þar sem hann var sagður samkynhneigður.

Gawker fréttavefurinn var stofnaður fyrir 14 árum en ritstjórnarstefnan var fremur aðgangshörð og fengu stjörnur og fyrirmenni að finna fyrir beittum pennum vefsins.

Hulk Hogan stefndi Gawker eftir að vefurinn birti myndband af kynlífsathöfnum Hogan og eiginkonu vinar hans. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×