Fótbolti

Verður Ísland kosið lið Evrópumótsins á Guardian?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson og Kolbeinn Sigþórsson fagna hér marki Jóns Daða á móti Austurríki.
Jón Daði Böðvarsson og Kolbeinn Sigþórsson fagna hér marki Jóns Daða á móti Austurríki. Vísir/EPA
Íslenska fótboltalandsliðið á möguleika á því að verða kosið lið Evrópumótsins í Frakklandi í kosningu á heimasíðu enska blaðsins The Guardian.

Ísland hefur þegar þetta er skrifað naumt forskot á Wales en velska liðið fór alla leið í undanúrslitin á sínu fyrsta Evrópumóti.

Hjá Guardian er hægt að kjósa um besta leikmanninn, besta markið, besta leikinn, lið mótsins og vonbrigði mótsins. Leikur Íslands og Englands kemur til greina sem besti leikur mótsins en hingað til hefur leikur Wales og Belgíu í átta liða úrslitunum fengið flest atkvæði.

Smelltu hér til að taka þátt í kosningunni.

Íslensku strákarnir voru ekki aðeins að taka þátt í sínu fyrsta Evrópumóti heldur sínu fyrsta stórmót. Ísland varð fámennasta landsliðið til að keppa á stórmóti í karlafótboltanum en komst engu að síður alla leið í átta liða úrslitin.

Sigur Íslands á Englandi í sextán liða úrslitum Evrópumótsins vakti náttúrulega gríðarlega athygli í Englandi enda tapið mikið áfall fyrir enskan fótbolta.

Englendingarnir bera engan kala til íslenska liðsins ef marka má þessa kosningu og hafa verið duglegir að kjósa strákanna okkar.

Það er líka ljóst að það er ekki aðeins verið að kjósa Ísland sem lið mótsins vegna frammistöðu leikmannanna heldur einnig vegna frábærrar frammistöðu íslenska stuðningsfólksins í stúkunni.

Íslendingar geta farið og gefið sitt atkvæði með því að smella hér. Miðað við stuðninginn á bak við íslenska landsliðið út í Frakklandi er líklegt að margir hér á Íslandi væru til að hjálpa íslenska liðinu að verða lið Evrópumótsins hjá Guardian.

Vísir/EPA

Tengdar fréttir

Stjörnur ESPN á EM 2016 eru Griezmann, Ísland og Wales

Bandaríski íþróttamiðilinn ESPN fjallaði ítarlega um Evrópumótið í Frakklandi á meðan því stóð og var með einn bloggara frá hverri þátttökuþjóð sem sögðu frá keppninni frá sínu sjónarhorni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×