Innlent

„Gríðarlega mikilvægt að geta endurheimt hann“

Þórhldur Þorkelsdóttir skrifar
VÍSIR/SKJÁSKOT
Björgunarsveitarmenn unnu þrekvirki við björgunaraðgerðir í Sveinsgili við Torfajökul í gær en aðstæður á vettvangi voru sérstaklega erfiðar og hættulegar. Kafari sem tók þátt í leitinni segir að samstarf björgunarsveita, lögreglu, ríkislögreglustjóra, slökkviliðs og sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar hafi gert það að verkum að franski ferðamaðurinn fannst.

Aðgerðirnar eru með þeim umfangsmestu í sögu Landsbjargar en ungur ferðamaður í gönguferð um svæðið rann af tuttugu metra þykkri íshellu við gilið og út í jökulá, sem bar bar hann undir íshelluna. Maðurinn fannst látinn seint í gærkvöldi. Hann var franskur ríkisborgari fæddur árið 1989.

Fjórir kafarar frá Landhelgisgæslunni voru á staðnum en þeir eru allir hluti af sprengisveit gæslunnar sem tók þátt í að losa um ísinn í íshellunni svo auðveldara væri að moka snjónum burt.

Jónas Karl Þorvaldsson, einn kafaranna, segir að aðstæður hafi verið gríðarlega erfiðar. Köfun í straumvatni sé alltaf mjög erfið og hættuleg, en þegar um er að ræða jökulá undir ís sé verkefnið vandasamt.

„Við erum náttúrlega að kafa í lokuðu rými þarna. Við erum að kafa í straumvatni og þetta er jökulá þannig að það er ekkert skyggni.  Það var mjög þröngt svo þetta voru ekki ákjósanlegar aðstæður til að kafa í. En við reyndum að tryggja aðstæður sem best þarna. Það var búið að græja útgönguleiðir og við köfuðum þetta á aðfluttu lofti. Þannig að við reyndum að gera þetta eins öruggt og hægt var,“ segir Jónas. 

Kafararnir höfðu verið að í um þrjá tíma þegar maðurinn fannst. Jónas segir það hafa verið mikinn létti.

„Það var mikill léttir og sérstaklega þegar maður hugsar til aðstandenda, að geta skilað honum heim. Það náttúrlega er gríðarlega mikilvægt að geta endurheimt hann.“

Hann segir að gott samstarf hafi orðið til þess að vel gekk að skipuleggja og framkvæma aðgerðirnar. Góð samvinna hafi gert það að verkum að maðurinn fannst.

„Það þurfti að vera með mikla útsjónarsemi í þetta. Bæði að nota keðjusagir til að saga ísinn og svo sprengdum við mikið til að mylja ísinn svo það væri hægt að moka hann. Með sameiginlegu átaki gekk þetta. Þetta gekk alveg ótrúlega vel miðað við þessar aðstæður sem voru þarna.“


Tengdar fréttir

Féll niður um snjóbrú

Aðstæður eru nokkuð erfiðar í Sveinsgili en leitað er að manni sem féll í ánna fyrr í kvöld.

Féll í á við Sveinsgil

Björgunarsveitirnar frá Hellu að Kirkjubæjarklaustri voru kallaðar út vegna manns sem féll í á við Sveinsgil fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×