Innlent

Fékk hjartaáfall við björgunaraðgerðir í Sveinsgili

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Frá björgunaraðgerðum í gær.
Frá björgunaraðgerðum í gær. Vísir/Landsbjörg
Maður sem vann í aðgerðunum við Sveinsgil þegar franskur ferðamaður rann af snjóhengju út í kalda jökulá fór í hjartastopp í gær.

Maðurinn var staddur í Landmannalaugum þegar hann fékk hjartaáfall og var fluttur með þyrlu í bæinn. Maðurinn hafði unnið að björgunaraðgerðum í gær frá því um miðjan dag. Hann er við góða heilsu í dag og jafnar sig á spítala.

Hann var einn af um 300 einstaklingum sem unnu við aðgerðirnar í fyrradag, fyrrinótt og í gær. Aðilarnir komu frá Landsbjörg, ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunni og slökkviliðinu. Maðurinn var ekki sjálfboðaliði á vegum Landsbjargar.

Sjá einnig heildarumfjöllun Vísis um björgunaraðgerðirnar: Þrekraun í Sveinsgili

Ekki er vitað hvort maðurinn hafi ofreynt sig við björgunaraðgerðir en aðstæður á svæðinu voru mjög erfiðar. Björgunarsveitarmenn og aðrir starfsmenn þurftu að aka nokkra stund frá Landmannalaugum að bröttum fjallshrygg. Þá tók við um fjörutíu mínútna ganga að slysstað. Á slysstað fólst vinnan aðallega í því að moka holur ofan í tuttugu metra þykka snjóhengjuna en snjórinn var harður og í raun eins og ís. 

Franski ferðamaðurinn sat fastur undir snjóhengjunni. Hann var látinn þegar hann fannst. Maðurinn var fæddur árið 1989. Lögregla fer með rannsókn málsins.

Uppfært 11.00:

Upphaflega var greint frá því að maðurinn hefði verið sjálfboðaliði á vegum Landsbjargar. Það byggðist á misskilingi en maðurinn tilheyrði hópi annarra viðbragðsaðila. Þetta hefur nú verið leiðrétt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×