Innlent

Engar „óþarfa hetjudáðir“ í Sveinsgili

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Göt voru sprengd í íshelluna í Sveinsgili. Hér má sjá gilið og íshelluna sem liggur yfir jökulvatninu.
Göt voru sprengd í íshelluna í Sveinsgili. Hér má sjá gilið og íshelluna sem liggur yfir jökulvatninu. Mynd/Landhelgisgæslan
Björgunarmenn á vettvangi í Sveinsgili náðu að staðsetja manninn sem leitað hefur verið að í ánni undir skaflinum. Í gærkvöldi var unnið að því að ná honum upp.  

Björgunarsveitarmenn gengu frá á vettvangi, bæði við ána og í Landmannalaugum þar sem vettvangsstjórnstöð hefur verið starfrækt.

Aðstæður á leitarsvæðinu voru mjög hættulegar og erfiðar því fólki sem kom að leitinni. Í tilkynningu frá Landsbjörg í gær kom fram að björgunarsveitarmenn þörfnuðust hvíldar eftir að hafa brotið, sagað og mokað snjó og klaka í allan gærdag.

Við leitina aðstoðaði séraðgerða- og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar. Sveitin er skipuð köfurum og sérfræðingum í sprengiefnum en íshellan sem liggur yfir gilinu er afar þykk og var erfið viðureignar.

Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerða- og sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar, segir sveitina hafa notast við alla sína sérþekkingu.

„Þarna var ekkert símasamband, en við vorum með gervihnattasamband, þá er í gilinu harður klaki sem náðist ekkert að marka í. Björgunarsveitin boraði með kjarnaborum í ísinn og við settum sprengiefni í hann,“ segir Sigurður en meðlimir sveitarinnar voru búnir sprengiefnum til að vinna á gegnharðri klakahellunni til að reyna að auðvelda leitina.

Undir klakahellunni er straumþungt jökulvatn.

„Það fóru menn frá okkur undir ísinn til leitar. Þetta er ekki fyrir hvern sem er, bæði hættulegt og erfitt. Vatnið er afar kalt og það er mikill straumur. Kafararnir fóru niður með aðflutt loft frá yfirborðinu til öryggis. Þeir voru með myndavélar á grímunum svo að þeir sem eru uppi gátu séð allt sem kafarinn sér og rúmlega það,“ segir Sigurður. „Við lögðum mikla áherslu á að enginn leggði sig í hættu. Það máttu ekki vera neinar óþarfa hetjudáðir í þessu verkefni,“ segir Sigurður.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×