Erlent

6000 handteknir í Tyrklandi: Erdogan útilokar ekki að beita dauðarefsingunni

Nanna Elísa Jakobsdóttir og Þorbjörn Þórðarson skrifa
Merkel kanslari Þýskaland leggur áherslu á mikilvægi þess að farið verði með uppreisnarmennina innan ramma dóms og laga en Erdogan útilokar ekki dauðarefsinguna.
Merkel kanslari Þýskaland leggur áherslu á mikilvægi þess að farið verði með uppreisnarmennina innan ramma dóms og laga en Erdogan útilokar ekki dauðarefsinguna. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Erdogan Tyrklandsforseta söfnuðust saman á torgum í mörgum tyrkneskum borgum í gær og í nótt til að lýsa yfir stuðningi og sýna samstöðu með stjórnvöldum eftir misheppnað valdarán hersins í landinu. Recep Tayyip Erdogan forseti og stjórnvöld í landinu vinna nú að því með öllum tiltækum ráðum að upplýsa hverjir það voru í raun sem stóðu að baki aðgerðunum í fyrradag.

6000 manns hafa verið handteknir hingað til og fjölmörgum dómurum sagt upp störfum. Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands, sagðist búa við því að sú tala myndi hækka á næstu dögum.

Erdogan útilokaði ekki í ræðu sem hann hélt í jarðaför eins fórnarlambs átakanna í dag að dauðarefsingin yrði innleidd í lög að nýju. Í Tyrklandi hefur verið sett fram sú krafa að þeir verði teknir af lífi án dóms og laga. Á meðan Erodgan flutti ræðu sína heyrðist í hópi fólks kyrja: „Við viljum dauðarefsinguna.“ Þetta var einnig vinsælt myllumerki á Twitter í gær. Erdogan sagði í ræðu sinni: „Við getum ekki hunsað kröfu fólksins þegar kemur að lýðræði – það er réttur ykkar.“ BBC greinir frá því að Erdogan hafi nú þegar sagt að þingið muni ræða möguleikann á því að uppreisnarmennirnir verði teknir af lífi. Það yrði afturvirk lagasetning sem myndi ganga gegn mannréttindum uppreisnarmanna þar sem dauðarefsingin hefur ekki verið lögleg í Tyrklandi síðan árið 2002. 

Fólk þusti út á götur í fyrrakvöld og stöðvaði för skriðdreka og hermanna.vísir/epa
Háttsettir embættismenn innan tyrkneska hersins hafa verið handteknir. Menn á borð við hershöfðingjann Erdal Ozturk, en hann fer fyrir þriðju herdeild, og hershöfðinginn Adem Huduti sem fer fyrir annarri herdeild. Þá hefur fyrrum yfirmaður flughersins, Akin Ozturk, einnig verið handtekinn. 

Angela Merkel kanslari Þýskalands fordæmdi valdaránsstilraunina í gær en sagði að sækja þyrfti þá sem stóðu að henni til saka á grundvelli laga og reglna. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tók undir þetta.

Bandaríkin framselja ekki Gulen án sannana

Erdogan hefur sakað Fethullah Gulen um að standa á bakvið uppreisnina en hann er í útlegð í Bandaríkjunum. Forsetinn krefst þess að Gulen verði handtekinn í Bandaríkjunum og framseldur til Tyrklands en Gulen hefur harðneitað því að tengjast valdaránstilrauninni og fordæmdi hana í gær.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Tyrkir verði að sýna fram á óyggjandi sannanir þess efnis að Gulen hafi staðið á bakvið valdaránstilraunina til þess að bandarísk stjórnvöld fari að skipta sér af honum. Erdogan og Gulen voru áður samstarfsmenn en forsetinn hefur nú í lengri tíma sakað Gulen um að plotta gegn sér. Gulen hefur verið í útlegð í tæp sextán ár.

Reuters greinir frá því að að minnsta kosti 265 hafi látið lífið í átökunum í Tyrklandi í fyrradag og gærnótt. Uppreisnarmenn úr röðum hersins notuðu skriðdreka, þyrlur og herþotur við valdaránstilraunina og komust yfir þinghúsið og skrifstofur leyniþjónustunnar í Ankara og umkringdu alþjóðaflugvöllinn í Istanbúl.

Snemma í gærmorgun höfðu um þrjú þúsund tyrkneskir hermenn sem stóðu að valdaránstilrauninni verið handteknir. Erdogan flýtti för sinni heim til að afstýra valdaráninu en hann hafði verið í fríi í Marmaris.

Utanríkisráðuneytið ræður öllum Íslendingum frá því að ferðast til Tyrklands nema af ítrustu nauðsyn. Íslendingar sem staddir eru í landinu eru beðnir um að halda sig innandyra, sýna varkárni og fylgjast með fregnum af ástandi mála.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×