Erlent

Um 50 þúsund ýtt til hliðar eða fangelsaðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa nú ýtt til hliðar eða fangelsað um 50 þúsund manns eftir misheppnaða valdaránið á föstudaginn. Um er að ræða hermenn, lögregluþjóna, dómara, embættismenn og kennara. Spenna hefur stigmagnast í Tyrklandi á síðustu dögum.

Minnst 9,322 verða dregnir fyrir dóm vegna meintrar aðildar að valdaránstilrauninni.

Þá hefur hreinsunin, sem yfirvöld segja að miðist af því að reka stuðningsmenn Fethullah Gulen, klerks sem er í sjálfsskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, frá opinberum vettvangi. Gulen og stuðningsmenn hans eru sakaðir um að hafa staðið að baki valdaráninu, en Gulen hefur sjálfur neitað því og fordæmt tilraunina.

„Við munum draga þá upp með rótunum,“ sagði Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, við þingmenn í dag.

Minnst 232 létu lífið í átökum í valdaráninu og um 1.400 særðust. Gulen hefur haldið því fram að Erdogan hafi sjálfur skipulagt valdaránið til þess að geta hert tök sín í Tyrklandi enn fremur.

Sjá einnig: Erdogan að færa Tyrkland í átt til einræðis.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni vinna stjórnvöld Tyrklands nú að því að fá Gulen framseldan frá Bandaríkjunum. Bandamenn Tyrklands um heim allan hafa fordæmt valdaránstilraunina en hafa sagt að stjórnvöld Tyrklands ættu ekki að fara fram úr sér í hreinsunum og fylgja lýðræðislegum gildum.

Utanríkisráðuneyti Tyrklands segir að gagnrýni á aðgerðir stjórnvalda jafnist á við stuðningsyfirlýsingu við valdaránstilraunina.

Þing Tyrklands mun funda á morgun um að taka aftur upp dauðarefsingu. Hún var felld úr lögum árið 2004 vegna tilrauna Tyrklands til að ganga til liðs við Evrópusambandið. Erdogan hefur ítrekað kallað eftir því að þingmenn ræði það að taka dauðarefsinguna aftur upp.

Leiðtogar ESB segja að verði dauðarefsing tekin upp aftur í Tyrklandi verði umsókn þeirra úr sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×