Innlent

Líkamsárás í Krónunni: Nefbrotinn og hyggst leggja fram kæru á miðvikudag

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Maðurinn var beittur ofbeldi svo úr blæddi.
Maðurinn var beittur ofbeldi svo úr blæddi. Vísir
Maðurinn sem ráðist var á í Krónunni í gærdag er nefbrotinn og hyggst leggja fram kæru á miðvikudag. Þetta hefur Vísir eftir öruggum heimildum. Fyrr í dag var greint frá því að samkvæmt skýrslu lögreglu hefði maðurinn ekki reynst nefbrotinn.

Ráðist var á manninn í grænmetisdeild Krónunnar í gær en annar maður kýldi hann eftir að hafa sakað hann um að hafa beitt vinkonu sína grófu ofbeldi. Mennirnir tókust á þar til viðskiptavinir verslunarinnar og starfsfólk drógu árásarmanninn af hinum og var hann leiddur út af kærustu sinni.

Sjá einnig: Líkamsárás í Krónunni Granda

Mikið blæddi úr manninum og töldu vitni sem Vísir ræddi við næsta víst að maðurinn hefði nefbrotnað, svo mikið lét hann á sjá. Eftir að hafa farið á slysadeild hefur komið í ljós að maðurinn er ekki aðeins nefbrotinn heldur er hann með áverka á auga eftir gleraugnabrot.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að farið verði með málið sem minniháttar líkamsárás en það merkir að fórnarlambið sé ekki með beinbrot. Það verður leiðrétt á miðvikudag þegar fórnarlambið heldur á fund lögreglu ásamt lögmanni sínum.

Starfsfólki Krónunnar og viðskiptavinum var brugðið eftir atvikið en margt var um manninn í versluninni þegar atvikið átti sér stað. Þegar lögregla kom á staðinn voru fórnarlamb og gerandi á bak og burt en þó voru þeir báðir yfirheyrðir á öðrum stað í borginni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×