Fótbolti

Kristinn Jak: Fáum góðan dómara í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn er bláklæddur í dag, eins og gefur að skilja.
Kristinn er bláklæddur í dag, eins og gefur að skilja. Vísir/E. Stefán
Kristinn Jakobsson, fyrrverandi knattspyrnudómari, verður meðal áhorfenda á leik Íslands og Austurríkis á EM í dag. Vísir rakst á hann fyrir utan Rauðu mylluna í dag þar sem stuðningsmenn Íslands komu saman í hádeginu í París.

„Nú er maður bara að njóta,“ sagði Kristinn sem var sjálfur starfandi dómari á EM 2008 þegar keppnin fór fram í Austurríki og Sviss. Hann sá líka leik Íslands og Ungverjalands í Marseille á laugardag.

„Það var meiriháttar. Svo höfum við verið að ferðast mikið um Frakkland og maður finnur stuðning við Ísland hvert sem maður kemur. Margir hafa Ísland sem sitt annað lið sem þeir halda með.“

Hann segist ekki losna við það að horfa á leiki með augum dómara og hann segist hafa haldið sambandi við þá dómara sem eru að starfa á EM. Hann er hrifinn af dómaranum sem dæmir leik Íslands og Austurríkis í dag, Pólverjanum Szymon Marciniak.

„Þetta er yngsti dómarinn á mótinu [35 ára] og er fremstur meðal yngri dómara í evrópu. Hann byrjaði sjálfur sem leikmaður og var í hálfatvinnumennsku. Hann hefur því mikinn og góðan skilning á leiknum.“

„Hann hefur farið hratt upp stigann og verið að dæma stóra leiki í Meistaradeildinni. Ég á ekki von á öðru en að hann eigi góðan leik.“

Ísland má helst ekki við því að fá fleiri gul spjöld á mótinu þar sem að refsistig gætu ráðið mögulega úrslitum um hvort að Ísland fari áfram.

„Hann er ekki spjaldaglaður dómari. Hann hefur eins og ég sagið mikinn skilning á leiknum og vill láta hann fljóta. Hann gefur bara spjöld þegar það er verðskuldað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×