Erlent

Flokkur Rajoy hlaut flest atkvæði en áframhaldandi stjórnarkreppa

Atli Ísleifsson skrifar
Mariano Rajoy tók við starfi forsætisráðherra Spánar árið 2011.
Mariano Rajoy tók við starfi forsætisráðherra Spánar árið 2011. Vísir/AFP
Íhaldsflokkur Mariano Rajoy, starfandi forsætisráðherra Spánar, vann sér inn flest þingsæti í spænsku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Flokkurinn náði þó ekki meirihluta og eru því líkur á áframhaldandi stjórnarkreppu í landinu.

Flokkur Rajoy, PP, vann sér inn 137 þingsæti í kosningunum, en alls eiga 350 þingmenn sæti á spænska þinginu. Þingmönnum flokksins fjölgaði þar með um fimmtán, borið saman við þá 122 sem þeir unnu sér inn í kosningunum í desember.

Sósíalistaflokkurinn PSOE hlaut næstflest þingsæti, eða 85, vinstri flokkurinn Unidos Podemos 71 og mið-hægri flokkurinn Ciudadanos 32 þingsæti.

Stjórnarkreppa hefur ríkt í landinu síðastliðna sex mánuði eða allt frá þingkosningunum í desember.

Í frétt BBC er haft eftir Rajoy að hann telji sig hafa rétt til að starfa áfram sem forsætisráðherra. Hann segist vonast til að flokkarnir á þingi geti náð samkomulagi um stjórnarmyndun innan mánaðar.

Rajoy stendur þó frammi fyrir sama vandamáli og eftir kosningarnar í desember, það er að tryggja myndun starfhæfs meirihluta á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×