Fótbolti

Ari Freyr: Erum ekki eins lélegir og allir halda

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ari Freyr brosmildur í leikslok.
Ari Freyr brosmildur í leikslok. vísir/getty
Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður Íslands, segir að Ísland sé ekki eins lélegt og allir halda. Þetta sagði Ari eftir 1-1 jafntefli gegn Portúgal á EM í Frakklandi í kvöld.

„Við vörðumst vel og börðumst fyrir hvorn annan og það sáu það allir að við erum góð liðsheild þegar við hlaupum fyrir hvern annan," sagði Ari Freyr í leikslok.

Portúgal fékk ekki mörg opin dauðafæri í leiknum.  Nani fékk gott skallafæri í byrjun, en það var ekki mikið meira.

„Þeir fengu sín færi í fyrri hálfleik, en annars fannst mér við halda þeim þó nokkuð vel niðri. Það eru ekki mörg skotfæri sem Ronaldo fékk og þeir voru með góða krossa, en mér fannst við standa það vel."

„Það var góð varnarvinna í öllum á miðjunni og þeir voru duglegir að koma til baka. Það er ekki hægt að kvarta undan baráttuviljanum í okkur."

Ísland er því með eitt stig eftir fyrsta leik sinn á stórmóti gegn stórþjóðinni Portúgal, en næst bíða Ungverjar á laugardag.

„Þetta þýðir bara að við ætlum að taka þrjú stig í næsta leik," en Cristino Ronaldo neitaði að taka í hönd Íslendinga eftir leik og Ari skilur stórstjörnuna:

„Auðvitað skil ég hann að vera svona eftir að hafa tapað stigum gegn litla Íslandi, en þetta tekur á sálina á honum. Við erum ekki eins lélegir og allir halda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×