Fótbolti

Ísland með yfirhöndina gegn Skotum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Byrjunarlið Íslands í vináttulandsleiknum gegn Skotlandi fyrir þremur árum.
Byrjunarlið Íslands í vináttulandsleiknum gegn Skotlandi fyrir þremur árum. vísir/myndasafn ksí
Ísland og Skotland mætast í kvöld í uppgjöri toppliðanna í riðli 1 í undankeppni EM 2017 í fótbolta. Leikurinn fer fram í Falkirk í Skotlandi og hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma.

Bæði lið eru með fullt hús stiga í riðlinum; Ísland eftir fjóra leiki og Skotland eftir fimm. Liðin hafa unnið sína leiki í riðlinum mjög örugglega en til marks um það er markatala íslenska liðsins 17-0 og 27-2 hjá því skoska.

Sjá einnig: Ekkert hnjask og ekkert vesen

Þetta er níundi landsleikur Íslands og Skotlands í kvennaflokki en Íslendingar hafa yfirhöndina í innbyrðis viðureignum liðanna. Ísland hefur unnið fjóra leiki, Skotland tvo og tveir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 18-10, Íslandi í hag.

Fyrsti leikur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta var gegn Skotum á útivelli fyrir 35 árum. Skoska liðið hafði þar betur með þremur mörkum gegn tveimur.

Liðin gerðu markalaust jafntefli í næsta leik en svo komu fjórir sigrar í röð hjá íslenska liðinu með markatölunni 13-3.

Sjá einnig: Stærstu leikirnir alltaf skemmtilegastir

Liðin mættust síðast í vináttulandsleik á Laugardalsvelli 1. júní 2013 þar sem Skotar fóru með sigur af hólmi, 2-3. Sara Björk Gunnarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir skoruðu mörk íslenska liðsins.

Fjórtán af þeim 22 leikmönnum sem voru á skýrslu í leiknum fyrir þremur árum eru í íslenska leikmannahópnum sem mætir Skotlandi í kvöld.

Leikir Íslands og Skotlands í gegnum tíðina:

Skotland 3-2 Ísland - 1981

Skotland 0-0 Ísland - 1992

Ísland 2-1 Skotland - 1992

Skotland 1-4 Ísland - 1994

Ísland 5-1 Skotland - 2004

Skotland 0-2 Ísland - 2005

Skotland 1-1 Ísland - 2012

Ísland 2-3 Skotland - 2013




Fleiri fréttir

Sjá meira


×