Fótbolti

Íslendingur dæmdi fyrsta tapleik Evrópumeistaranna í rúmt ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vilhjálmur Alvar gerir hlé á leiknum vegna meiðsla markvarðar Georgíu.
Vilhjálmur Alvar gerir hlé á leiknum vegna meiðsla markvarðar Georgíu. vísir/afp
Evrópumeistarar Spánar töpuðu í kvöld síðasta vináttuleiknum fyrir Evrópumótið í fótbolta þegar liðið lá á heimavelli gegn Georgíu, 1-0.

Spánverjar stilltu upp nokkuð sterku liði en Sergio Ramos, Gerard Piqué, Jordi Alba, Juanfran, Cesc Fábergas, Thiago Alcantara og David De Gea voru allir í byrjunarliðinu.

Tornike Okriashvili, leikmaður Gent í Belgíu, skoraði eina mark leiksins á 40. mínútu. Hann renndi boltanum í netið af stuttu færi eftir undirbúning Jaba Jigauri. Spánverjar sóttu án afláts í seinni hálfleiknum en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Þetta er fyrsti landsleikurinn sem Spánn tapar síðan í mars á síðasta ári þegar liðið tapaði gegn Hollandi, 2-0, í vináttuleik í Amsterdam.

Eftir þann tapleik vann Spánn alla sjö leiki ársins 2015, þar af fimm í undankeppni EM, en liðið gerði svo jafntefli í fyrstu tveimur vináttuleikjum ársins 2016 gegn Ítalíu og Rúmeníu.

Í undirbúningi fyrir Evrópumótið vann Spánn 3-1 sigur á Bosníu og Hersegóvínu í lok maí, 6-1 sigur á Suður-Kóreu í byrjun mánaðar en tapaði nú fyrir Georgíu.

Íslenski dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi þennan fyrsta tapleik Spánar í fimmtán mánuði og hafði hægt um sig. Hann gaf einum leikmanni Georgíu gult spjald á 61. mínútu og Spánverjanum Mikel San Jose, leikmanni Bilbao, gult á 81. mínútu en meira var það ekki.

Hann þurfti þó að gera hlé á leiknum vegna meiðsla markvarðar Georgíu sem fékk slæmt höfuðhögg. Uppbótartíminni í seinni hálfleik var tæpar tíu mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×