Fótbolti

Elín Metta: „Erum að verða sterkari og sterkari“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Elín Metta spólar framhjá einni frá Makedóníu í kvöld.
Elín Metta spólar framhjá einni frá Makedóníu í kvöld. vísir/eyþór
Elín Metta Jensen átti stjörnuleik þegar íslenska landsliðið lagði Makedóníu að velli á Laugardalsvelli í kvöld. Elín var ein af þeim leikmönnum sem komu inn í byrjunarliðið íslenska landsliðsins frá sigurleiknum gegn Skotlandi í síðustu umferð.

Átti hún frábæra innkomu og var drifkrafturinn í sóknarleiknum í fyrri hálfleik í auðveldum 8-0 sigri liðsins á Makedóníu í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

„Það skiptir ekki máli hver kemur inn á í þessu liði. Það eru allar tilbúnar og koma inn með þvílíkan kraft. Það hefur verið að aukast hjá okkur undanfarna mánuði og við erum að verða sterkari og sterkari,“ segir Elín Metta.

Elín skoraði mark, lagði upp önnur tvö og olli varnarmönnum Makedóníu sífelldum vandræðum með hlapum sínum inn fyrir vörnina. Hún segir þó að það hafi verið erfitt að halda einbeitingu gegn jafn slöku liði og mætti til leiks á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Maður þarf að klípa í sig og segja sjálfum sér að halda fókus. Það er erfitt en maður verður að geta það í svona leikjum en ég get verið nokkuð ánægð með minn leik.“

Liðið er nánast öruggt með sæti á EM í Hollandi næsta sumar en liðið hefur spilað frábærlega í undankeppninni, ekki fengið á sig mark, unnið alla leikina og er með markatöluna 29-0 í sex leikjum. Framundan eru tveir leikir í haust þar sem liðið getur endanlega tryggt sig á lokamótið.

„Við erum eins nálægt því og hægt er að vera að komast þarna inn og það þarf eitthvað mikið að fara úrskeiðis til þess að það takist ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×