Innlent

Flugumferðarstjórar hissa á skorðum sem Gerðardómi eru settar

Bjarki Ármannsson skrifar
Flugumferðarstjórar lýsa yfir mikilli furðu á því að lög sem sett hafa verið á aðgerðir þeirra í kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins setji Gerðardómi fyrirfram ákveðnar skorður. Þeir ítreka að hverjum og einum flugumferðarstjóra sé í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu, þrátt fyrir að yfirvinnubann sem hefur verið í gildi sé nú ólöglegt.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi Félags íslenskra flugumferðarstjóra í gærkvöldi. Þar er sem fyrr segir gerð athugasemd við það að í lögunum segir að Gerðardómur, sem skipaður verður 24. júní ef samningar nást ekki fyrir þann tíma, skuli fyrst og fremst taka mið af kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði síðustu misseri.

„Um leið er honum fyrirskipað að horfa framhjá þeirri grundvallarkröfu flugumferðarstjóra að tekið sé tillit til þess hve mjög þeir hafa dregist aftur úr öðrum hópum launafólks á því fimm ára tímabili sem samið var til árið 2011,“ segir í ályktuninni.

Sjá einnig: Alþingi samþykkti lög á kjaradeilu flugumferðarstjóra

Félagsmenn lýsa yfir miklum vonbrigðum með inngrip stjórnvalda í kjaradeiluna. Þeir segja yfirvinnubannið sem í gildi hefur verið undanfarnar vikur mildar en nauðsynlegar aðgerðir til þess að ná eyrum og skilningi stjórnvalda.

„Vakin er athygli á því að um það bil fimmta hver klukkustund hjá flugumferðarstjórum hefur, vegna manneklu í stéttinni, verið unnin í yfirvinnu,“ segir í ályktuninni. „Flugumferðarstjórar munu sem fyrr sinna öllum lögbundnum skyldum sínum en fundurinn ítrekar að þrátt fyrir lagasetninguna er hverjum og einum flugumferðarstjóra í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu.“

Félagsmenn segjast vona að samningar takist áður en fresturinn rennur út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×