Innlent

Inngrip ríkisstjórnar ekki ákjósanlegt en skiljanlegt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að inngrip stjórnvalda í kjaradeilu flugumferðarstjóra og SA sé skiljanlegt en ekki ákjósanlegt.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að inngrip stjórnvalda í kjaradeilu flugumferðarstjóra og SA sé skiljanlegt en ekki ákjósanlegt. Vísir/GVA
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að inngrip stjórnvalda í kjaradeilu flugumferðarstjóra og SA sé skiljanlegt. Það sé þó aldrei góð staða takist ekki að leiða deilur til lykta með samningum.

„Mér finnst þetta inngrip skiljanlegt í ljósi aðstæðna sem upp eru komnar í þessari deilu. Það er hins vegar aldrei ákjósanlegt að ekki sé hægt að leiða deilur til lykta með samningum. Það er sá farvegur sem við viljum sjá í þessum málum,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi.

Ákveðið var í dag á fundi ríkisstjórnarinnar að Ólöf Nordal innanríkisráðherra myndi leggja fram tvö frumvörp þess efnis að deiluaðilar fái frest til 24. júní til þess að leysa deiluna, ella verði gerðardómur kvaddur til.

Flugumferðarstjórar hafa átt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og Isavia frá því í október á síðasta ári. Samningaviðræður hafa gengið illa og hafa flugumferðarstjórar sett á yfirvinnubann þannig að ekki er hægt að manna vaktir komi til veikinda.

Þorsteinn fagnar því þó að deiluaðilar fái frest til þess að ná samningum. Ljóst er að töluvert ber á milli deiluaðila og illa hefur gengið að ná samningum. Síðasti fundur á milli flugumferðarstjóra og SA fór fram á föstudag án þess að boðað yrði til nýs fundar. Þorsteinn segir að innan SA sé fullur vilji til þess að ná fram samningum en samtökin séu bundin af SALEK-samkomulaginu, frá því verði ekki hvikað.

„Af okkar hálfu er fullur vilji til þess að ná fram samningum. En við höfum sagt að við erum bundin af þeirri launastefnu sem mörkuð hefur verið af vinnumarkaðinum og lagði þann grunn að þeim friði sem þar ríkir nú. Sú afstaða okkar er óbreytt og frá henni getum við ekki hvikað,“ segir Þorsteinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×