Stjarnan dróst á móti FH í 16-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna en liðin mætast í Kaplakrika laugardaginn 11. júní næstkomandi. Stjörnukonur hafa unnið bikarkeppnina undanfarin tvö ár og eiga því titil að verja.
„Við vorum ekkert heppnar með drátt. Við erum að fara á einn erfiðasta útivöll landsins og trúlega þann besta,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í samtali við Vísi í höfuðstöðvum KSÍ í hádeginu.
Ásgerður segir að FH sé með hörkulið enda hafa Hafnfirðingar, sem eru nýliðar í Pepsi-deildinni, byrjað vel og eru með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina.
„Þær eru taplausar í deildinni og ekki fengið á sig mark þannig að það verður gríðarlega erfitt fyrir okkur að fara í Krikann,“ sagði Ásgerður sem er sátt með byrjunina á tímabilinu en Stjörnukonur hafa unnið báða leiki sína með markatölunni 7-1.
„Ég er mjög sátt og við förum mjög vel af stað. Við erum á pari við það sem við ætluðum að gera,“ sagði Ásgerður að lokum.
Ásgerður: Vorum ekki heppnar með drátt

Tengdar fréttir

Guðmunda Brynja: Fengum stærsta leikinn
Selfoss mætir Val í 16-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna.