Innlent

Drekinn Haraldur hárfagri lagður af stað til Vínlands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Drekinn Haraldur hárfagri á siglingu utan við Eystribyggð á Grænlandi.
Drekinn Haraldur hárfagri á siglingu utan við Eystribyggð á Grænlandi. Mynd/Peder Jacobsson.
Stærsta víkingaskip veraldar, Drekinn Haraldur hárfagri, er nú leiðinni milli Grænlands og Kanada. Eftir nærri vikulangt stopp í Eystribyggð Eiríks rauða var lagt af stað í fyrradag frá bænum Qaqortoq á Suður-Grænlandi en næsti áfangastaður er L‘anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands.

Þar eru einu fornminjar sem fundist hafa í Norður-Ameríku sem staðfest hefur verið með óyggjandi hætti að eru eftir veru norrænna manna í kringum árið 1000. Staðurinn fannst árið 1960 og er talinn hafa verið bækistöð Leifs Eiríkssonar og félaga. 

Frá L'Anse aux Meadows á nyrsta hluta Nýfundnalands í Kanada. Þar fundust fornleifar eftir víkinga árið 1960.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson
Útilokað þykir að þar hafi vínviður vaxið á tímum norrænu víkinganna. Hins vegar fundust þar smjörhnetur, sem líklegt þykir að víkingarnir hafi tekið með sér af syðri breiddargráðum. Þær þurfa álíka hlýtt loftslag og vínviður og þykir þetta sterk vísbending um að Leifur og hans menn komust á slóðir þar sem vínviður gat vaxið. 

Hvar Vínland var er ein af þessum heillandi ráðgátum sem margir hafa glímt við. Drekanum Haraldi hárfagra er einmitt ætlað að fara á líklega staði en skipinu verður siglt inn Saint Lawrence-flóa til Quebec-borgar og þaðan áfram inn á Vötnin miklu. Meðal annars verður komið við í Toronto og Chicago. Síðasti áfangastaðurinn verður New York-borg. 

Fylgjast má með för skipsins á heimasíðu leiðangursins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×