Innlent

Ólafur Ragnar án Ólafíu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Ragnar hefur notið góðs af kröftum Ólafíu í kosningabaráttu, sem og aðrir stjórnmálamenn, en Ólafía gegnir nú formennsku í VR.
Ólafur Ragnar hefur notið góðs af kröftum Ólafíu í kosningabaráttu, sem og aðrir stjórnmálamenn, en Ólafía gegnir nú formennsku í VR. Vísir/EPA
Ólafur Ragnar Grímsson verður án Ólafíu B. Rafnsdóttur í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í sumar. Ólafía, sem í dag er formaður VR, var kosningastjóri Ólafs Ragnars þegar hann bauð sig fyrst fram árið 1996 og hafði sigur.

Hún stýrði baráttu hans aftur árið 2012 þar sem hann fór með öruggan sigur af hólmi en Ólafía útilokaði í samtali við Vísi að koma að kosningabaráttu Ólafs Ragnars í þetta skiptið í ljósi þess að hún fer með formennsku í stéttarfélagi VR.

Ólafía er afar reynd þegar kemur að vinnu í kringum kosningabaráttur og því væntanlega missir fyrir Ólaf Ragnar að henni. Hún var einnig kosningastjóri Árna Páls Árnasonar í forvali Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, þar sem Árni valdist sem oddviti flokksins í því kjördæmi.

Þá vann hún einnig með Árna Páli í formannskjöri Samfylkingarinnar þar sem hann var kjörinn formaður. Árið 2005 var hún kosningastjóri Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjöri hennar gegn Össuri Skarphéðinssyni, þar sem Ingibjörg hafði betur.

Árið 2013 bauð hún sig fram sem formaður VR og hafði öruggan sigur í þeim kosningum með 76 prósentum atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×