Erlent

Kanada mun afglæpavæða neyslu á kannabisefnum á næsta ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Afglæpavæðing var eitt helsta stefnumál Justin Trudeau forsætisráðherra fyrir síðustu kosningar.
Afglæpavæðing var eitt helsta stefnumál Justin Trudeau forsætisráðherra fyrir síðustu kosningar. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Kanada stefnir að því að lögleiða og afglæpavæða notkun kannabisefna til einkanota á næsta ári. Var það eitt af helstu stefnumálum flokks Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fyrir síðustu kosningar.

Jane Philpott, heilbrigðisráðherra Kanada, lýsti þessu yfir á sérstökum fundi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavandann á heimsvísu sem nú stendur yfir í New York. Í máli Philpott kom fram að tryggt yrði að kannabisefni myndu ekki vera aðgengileg börnum og að glæpamenn myndu ekki hagnast á sölu kannabisefna.

„Við munum starfa með löggæsluyfirvöldum til þess að tryggja viðeigandi og hæfilegar ráðstafanir vegna þessarar ákvörðunar,“ sagði Philpott.

Notkun kannabisefna í lækningaskyni er nú þegar lögleg í Kanada. Ræktendur þess kvarta þó yfir því að í auknum mæli sé farið að bera á því að kannabisefni sé ræktað og seld til einkanota. Telja þeir að margir sæti færi og ætli sér að vera í startholunum þegar notkun kannabisefna til einkanota verði lögleidd. Aðalráðgjafi ríkisstjórnar Kanada í þessum málum ítrekar þó að enn sé ræktun og sala kannabisefna til einkanota ólöleg.

Nokkur umræða hefur farið fram hér á landi um afglæpavæðingu á einkaneyslu fíkninefna. Samkvæmt nýrri könnun MMR eru 23,2 prósent þeirra sem tóku afstöðu fylgjandi því að lögleiða neyslu kannabisefna en 76,8 prósent sögðust andvíg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×