Fótbolti

Freyr: Ekkert svigrúm til þess að misstíga sig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
„Það eru allir heilir og í góðu líkamlegu ástandi. Það eru allir leikmenn klárir í að takast á við verkefnið á morgun,“ segir Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins.

Á morgun spilar hans lið gegn Hvít-Rússum ytra í undankeppni EM 17 og má ekkert klikka í baráttunni um toppsætið gegn Skotum.

„Við verðum að nýta alla fundi og þessar tvær æfingar sem við fengum vel. Fyrri æfingin var lengri en venjulega og þar náðum við að fara yfir marga hluti. Það eru allir að hugsa vel um sig,“ segir Freyr en er það plús eða mínus að leikurinn sé á gervigrasi?

„Miðað við grasvellina sem ég hef séð í nágrenninu þá er það plús. Þeir eru blautir og lausir í sér. Þessi völlur er frábær og af nýjustu kynslóð.“

Ísland vann fyrri leik liðanna 2-0 en þurfti að hafa fyrir sigrinum.

„Það var góð frammistaða þar og við hefðum getað skorað meira. Við verðum að leggja okkur fram og spila góðan fótbolta. Þá eigum við að klára þetta verkefni. Það er ekkert svigrúm til þess að misstíga sig. Við erum bara að hugsa um að klára þetta verkefni.“

Sjá má viðtalið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×