Fótbolti

Freyr: Fullkominn dagur í Minsk | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var sæll og kátur eftir 0-5 sigur Íslands á Hvíta-Rússlandi í Minsk í undankeppni EM 2017 í dag.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna og að vinna 5-0. Ég bað liðið um að vinna og skora nokkur mörk. Að skora fimm mörk er mjög ásættanlegt, við héldum hreinu, fengum engin spjöld og enginn meiddist. Þannig að, fullkominn dagur í Minsk,“ sagði Freyr í samtali við KSÍ eftir leikinn.

Freyr segir að andstæðingurinn hafi ekki komið sér á óvart í leiknum í dag.

„Ég átti von á nákvæmlega þessu. Þetta spilaðist nákvæmlega eins og við vorum búin að undirbúa okkur fyrir. Þetta var spurning um hvernig við myndum nálgast verkefnið og við gerðum það vel,“ sagði Freyr en Ísland vann fyrri leikinn gegn Hvít-Rússum á Laugardalsvelli með tveimur mörkum gegn engu.

Íslenska liðið pressaði það hvít-rússneska hátt uppi á vellinum sem gaf góða raun.

„Við pressuðum ágætlega og unnum boltann yfirleitt mjög fljótt af þeim. Svo er náttúrulega erfitt að brjóta svona múr eins og þær voru með niður en við gerðum það fimm sinnum.

„Þetta var frábær frammistaða og ég er mjög ánægður með hugarfarið hjá öllum leikmönnunum og þeim sem koma að liðinu,“ sagði Freyr.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×