Fótbolti

Góðgerðarsamtök Drogba sökuð um stórfelld svik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Drogba með írska söngvaranum Bono,
Drogba með írska söngvaranum Bono, Vísir/Getty
Didier Drogba, fyrrum leikmaður Chelsea, birti í dag yfirlýsingu þar sem hann hótar að kæra enska dagblaðið Daily Mail fyrir fréttaflutning sinn af góðgerðarsamtökum Drogba.

Samtökin, Didier Drogba Foundation, eru til rannsóknar hjá enskum yfirvöldum eftir fréttaflutning Daily Mail.

Rannsókn blaðsins leiddi í ljós, samkvæmt fréttinni, að innan við eitt prósent af þeirri upphæð sem samtökin hafa aflað hefur verið varið í góðgerðarstarfsemi í Afríku.

„Það eru engin svik, engin spilling og engar lygar,“ sagði Drogba í yfirlýsingunni sem hann birti á Twitter-síðu sinni í dag.

Samtökin hafa safnað 1,7 milljónum punda í Bretlandi, jafnvirði 300 milljónum króna, en samkvæmt Daily Mail hefur aðeins 2,5 milljónum verið varið til góðgerðarmálanna sem samtökin vinna að.

Meðal þeirra sem hafa lagt málstaði Drogba lið má nefna Bono, Frank Lampard, David Beckham, Pele, John Terry, Roger Federer og Roman Abramovich.

Daily Mail heldur því fram að um 77 milljónum króna hafi verið varið í íburðamiklar veislur sem voru haldnar í nafni samtakanna og að afgangurinn sé geymdur á bankareikningum á Fílabeinsströndinni, heimalandi Drogba.

Góðgerðarsamtök Drogba ætluðu sér að reisa spítala og fimm heilsugæslustöðvar. Aðeins ein slík hefur verið byggð en í frétt Daily Mail kemur fram að þar eru engir starfsmenn og enginn búnaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×