Fótbolti

Solskjær heldur áfram að lofa Eið Smára: „Ekki margir sem gera það sem hann gerir“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar er ánægður með Eið Smára.
Ole Gunnar er ánægður með Eið Smára. mynd/moldefk.no
Eiður Smári Guðjohnsen átti stóran þátt í sigri Molde á Bodö/Glimt, 2-1, í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi kom inn á af bekknum í hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir Bodö en sjö mínútum síðar voru gestirnir komnir yfir.

Thomas Amange, sem kom inn á í hálfleik ásamt Eiði Smára, skoraði eftir 67 sekúndur og á 52. mínútu lagði Eiður Smári upp sigurmarkið sem Per Egil Flo skoraði.

„Frábær stoðsending hjá Eiði,“ skrifaði norski fótboltasérfræðingurinn Morten Langli á Twitter og Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Molde, var líka heldur betur sáttur með innkomu Eiðs.

„Ég er ánægður með að við settum Eið Smára inn á því hann skipti okkur sköpum eftir að hann kom inn á. Það eru ekki margir sem gera það sem hann gerir í undirbúningi marka,“ sagði Solskjær við Verdens Gang eftir leikinn.

Aðspurður hvort hann tæki undir að stoðsendingin hefði verið frábær svaraði Solskjær: „Já, hún var það,“ og hélt svo áfram að lofa frammistöðu Eiðs.

„Hann róaði okkur niður þegar hann kom inn á sem var gott að sjá. Við náðum að svara vel fyrir okkur eins og við gerðum gegn Stabæk en nú þurfum við bara að byrja leikina fyrr,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×