Erlent

Friðarviðræður í Sýrlandi í uppnámi

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir samningahóps uppreisnarmanna.
Meðlimir samningahóps uppreisnarmanna. Vísir/EPA
Samningahópur uppreisnarmanna í Sýrlandi hefur stöðvað friðarviðræður sem eiga sér stað í Genf. Þeir segja að sókn stjórnarhers Sýrlands gegn uppreisnarmönnum við borgina Aleppo sýni fram á að vopnahlé sé ekki lengur í gildi. Uppreisnarmenn hafa þó einnig hafið eigin sókn gegn stjórnarhernum í Latakia héraði.

„Við viljum raunverulegar viðræður, ekki grín-viðræður,“ sagði Mohammad Alloush, formaður samningahópsins, við Reuters fréttaveituna.

„Þegar það eru gerðar 70 loftárásir á dag, hermenn á ferðinni, þegar Íranar senda fleiri hermenn og Rússar senda eldflaugar og dróna, allt þetta segir okkur að það sé ekki raunverulegur vilji til þess að finna pólitíska lausn sem tryggir öryggi og stöðugleika í landinu.“

Samningahópurinn verður þó áfram í Genf og samningamenn Sameinuðu þjóðanna munu funda með þeim áfram og flytja skilaboð á milli deiluaðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×