Innlent

Lögregla mætti á heimili Sigmundar Davíðs vegna norskra blaðamanna

Birgir Olgeirsson skrifar
Ljósmynd sem blaðamenn Aftenposten tóku af Sigmundi Davíð forsætisráðherra og eiginkonu hans Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur við heimili þeirra í Garðabæ.
Ljósmynd sem blaðamenn Aftenposten tóku af Sigmundi Davíð forsætisráðherra og eiginkonu hans Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur við heimili þeirra í Garðabæ. Skjáskot af vef Aftenposten.
Lögreglumenn mættu að heimili Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra vegna blaðamanna norska dagblaðsins Aftenposten þegar þeir reyndu að ná tali af ráðherranum fyrir utan heimili hans í dag.

Þetta kemur fram í umfjöllun Aftenposten um tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og eiginkonu hans við aflandsfélagið Wintris sem er að finna í Panama-skjölunum. 

Blaðamenn Aftenposten biðu fyrir utan heimili Sigmundar Davíðs og Önnu Sigurlaugar í Garðabæ í dag. Þegar hjónin komu akandi að húsinu reyndu þeir að ná tali af þeim.

Í fréttinni kemur fram að Anna Sigurlaug fór úr bílnum og sagði þau ekki vilja veita viðtal vegna málsins. Á meðan sat Sigmundur Davíð í bílnum og var í upptekinn í síma sínum. 

Nokkrum mínútum síðar gerðu Aftenposten aftur tilraun til að tala við hjónin þegar lögreglubíl var ekið á svæðið. Tveir lögregluþjónar gáfu sig á tal við blaðamenn Aftenposten og báðu þá um að framvísa skilríkjum og blaðamannapassa. Eftir stutt samtal fór lögreglan til Sigmundar Davíðs sem gekk þá inn í húsið.

Lögreglan í Hafnarfirði sinnir útköllum í Garðabæ þar sem Sigmundur Davíð býr. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, hafði ekki heyrt af útkallinu þegar fréttastofa náði af honum tali í kvöld.

Uppfært klukkan 23:10:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að Sigmundur Davíð hefði sjálfur kallað eftir aðstoð lögreglu. Það hefur ekki fengist staðfest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×