Erlent

Risastór krókódíll skotinn í Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Krókódíllinn var um 4,5 metrar og rúm 360 kíló.
Krókódíllinn var um 4,5 metrar og rúm 360 kíló.
„Þetta var skrímsli sem nauðsynlegt var að fjarlægja.“ Þetta segir veiðimaðurinn Lee Lightsey frá Flórída sem nýverið skaut risastóran krókódíl. Dýrið var 4,5 metrar að lengd og rúm 360 kíló að þyngd. Lightsey kom að krókódílnum í tjörn þar sem kýr fá sér að drekka.

Hann var á ferð með öðrum veiðimanni og þeir voru í um sex metra fjarlægð þegar krókódíllinn kom upp á yfirborð tjarnarinnar. Lightsey segir það ekki koma sér á óvart að svo stór krókódíll skuli hafa verið á svæðinu. Hann hafi margsinnis séð krókódíla á síðustu tuttugu árum sem séu einungis örlítið minni.

„Það sem vakti athygli okkar var að dýrið virðist hafa verið að gæða sér á kúm af býlinu mínu.“

Þeir fundu mörg hræ í tjörninni og segir Lightsey við BBC að krókódíllinn hafi verið skrímsli og það hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja það.

Hann ætlar að stoppa dýrið upp og gefa kjötið af því til góðgerðarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×