Erlent

Vilja önnur réttarhöld yfir Savchenko

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælt við sendiráð Rússlands í Kænugarði.
Mótmælt við sendiráð Rússlands í Kænugarði. Vísir/AFP
Mannréttindasamtökin Amnesty International fara fram að réttað verði aftur yfir flugmanninum og þingkonunni Nadiya Viktorivna Savchenko. Hún var í dag dæmd í dómstóli í Rússlandi fyrir aðild að morði tveggja rússneskra fréttamanna á átakasvæði í Úkraínu sumarið 2014.

Samtökin segja réttarhöldin hafa verið gölluð og angað af pólitík.

Yfirmaður AI í Evrópu og Asíu segir ákvarðanir dómarans hafa sýnt fram á að Savchenko átti ekki möguleika á að sanna sakleysi sitt. Eina leiðin til að bæði hún og fréttamennirnir fái réttlæti sé að fram fari óháð rannsókn og ný réttarhöld, án þrýstings pólitískra afla og sem fylgi alþjóðalögum.

Savchenko var dæmd fyrir að hafa kallað eftir sprengjuvörpuárás á tvo blaðamenn og almenna borgara þar sem hún var á flugi í þyrlu. Hún var handsömuð af aðskilnaðarsinnum í austurhluta Rússlands og færð Rússum sem ákærðu hana. Rússar segja hana hafa laumast yfir landamærin.

Hún hefur ávalt neitað sök og segist hafa verið handsömuð áður en sprengjuvörpuárásin var gerð.?

Sjá einnig: Savchenko ætlar ekki að viðurkenna dóminn

Auk þess að vera flugmaður er Savchenko þingkona og er hún álitin vera hetja í Úkraínu. Hún var til dæmdis endurkjörin á þing þrátt fyrir að vera í fangelsi í Rússlandi. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa kallað eftir því að henni verði sleppt úr haldi.

Fjölmiðlar í Rússlandi birtu snemma í morgun fréttir um að hún hefði verið dæmd sek, en úrskurðurinn hafði ekki verið staðfestur. Heldur fóru þeir eftir orðum dómarans, sem sagði hana hafa valdið dauða fréttamannanna og borgaranna vísvitandi og að hún væri full af hatri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×