Fótbolti

Hátt viðbúnaðarstig á EM í Frakklandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Búast má við harðri öryggisgæslu á EM í Frakklandi í sumar.
Búast má við harðri öryggisgæslu á EM í Frakklandi í sumar. Vísir/Getty
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, sagði eftir hryðjuverkaárásirnar í Belgíu í morgun að allt yrði gert til að tryggja öryggi almennra borgara á meðan Evrópumeistaramótið í knattspyrnu verður haldið í landinu í sumar.

Ísland er á meðal þátttökuliða á mótinu og á leiki dagana 14., 18., og 22. júní í þremur mismunandi borgum - St. Etienne, Marseille og París.

Sjá einnig: Belgískir landsliðsmenn tjá sig um hryðjuverkin í Brussel

Eftir árásirnar í Brussel í morgun sagði Cazeneuve að gripið yrði til allra þeirra varúðarráðstafana sem þarf til að tryggja öryggi gesta Evrópumótsins en fjölmargir Íslendingar eru á leið til Frakklands að fylgja eftir íslenska liðinu.

130 manns létust í hryðjuverkaárásunum í París í nóvember og er enn yfirlýst neyðarástand í Frakklandi vegna þessa og verður áfram til 26. maí, tveimur vikum áður en Evrópumeistaramótið hefst.

Sjá einnig: Belgíska landsliðið frestar æfingu í Brussel

Mótshaldarar hafa hert öryggisráðstafanir til muna eftir árásirnar í París og ná þær sérstaklega til opinna svæða sem ætluð er stuðningsmönnum, svokallaðra Fan Zone, þar sem öllum er frjálst að horfa á leiki á stóru tjaldi.

Þeir sem vilja komst inn á svæðin mega eiga von á því að það verði leitað á þeim og að allt svæðið verði vaktað af myndavélum. Málmleitartækjum verður einnig komið fyrir við innganga.

Um sjö milljónir manna sóttu áhorfendasvæðin á meðan EM 2012 stóð í Póllandi og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×