Erlent

Sjáðu hvernig Trump hvetur ítrekað til ofbeldis

Bjarki Ármannsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Til ryskinga kom meðal stuðningsmanna Donald Trump og mótmælenda á kosningafundi forsetaframbjóðandans í Chicago á föstudagskvöld. Þurfti Trump að aflýsa kosningafundi vegna mótmæla í fyrsta sinn.

Í gær kenndi Trump mótmælendunum um það að til áfloga hafi komið en fjölmiðlar vestanhafs benda nú á að Trump ætti ef til vill að líta í eigin barm. Fréttakonan Rachel Maddow á bandarísku sjónvarpsstöðinni MSNBC hefur tekið saman mörg ummæli Trump þar sem hann hvetur beint eða óbeint til ofbeldis á kosningafundum sínum og sett í fróðlegt myndband sem sjá má hér að neðan.

Sem dæmi um ummæli sem Trump hefur látið falla um mótmælendur í ræðum sínum má nefna:

„Ef þið sjáið einhvern sem er að fara að kasta tómötum, kýlið þá kalda (e. „knock the crap out of them). Væruð þið til í það? Í alvörunni? Kýlið þá bara. Ég lofa að ég skal greiða málskostnaðinn, ég lofa.“ – 1. febrúar í Iowa.

„Ég elska gömlu góðu dagana. Vitið þið hvað gert var við svona náunga á svona stöðum. Það þyrfti að bera þá út á sjúkrabörum. Þetta er satt ... Ég segi það satt, ég væri til í að kýla hann í andlitið.“ – 22. febrúar í Nevada.

„Í gamla daga hefði honum bara verið fleygt úr sætinu snöggvast. En í dag eru allir pólitískt réttsýnir. Landið okkar er að fara til fjandans vegna þess að allir svo réttsýnir.“ – 29. febrúar í Virginíu.

„Hluti vandans er að enginn vill særa neinn lengur. Ekki satt? Og fólk er svo pólitískt réttsýnt með það hvernig farið er með aðra. Þannig að það tekur aðeins lengur. Og í sannleika sagt, mótmælendur – þeir átta sig á því að það dregur engan dilk á eftir sér lengur að mótmæla. Einu sinni voru afleiðingar. Það eru engar afleiðingar lengur.“ – 11. mars í Missouri, stuttu fyrir fundinn í Chicago.

Umfjöllun Maddow má sjá hér að neðan í heild sinni.


Tengdar fréttir

Svona gæti Trump valdið kreppu

Eftir niðurstöðu Ofurþriðjudags stefnir allt í það að Donald Trump verði forsetaefni Repúblíkanaflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×