Íslenski boltinn

Jón Rúnar: Dekkjakurlið óþægilegt en umræðan of æsingakennd

Arnar Björnsson skrifar
Formaður knattspyrnudeildar FH segir umræðuna um dekkjakurl á fótboltavöllum æsingakennda. Ekkert dekkkjakurl er á völlum FH-inga. Kostnaðurinn við að leggja nýtt gras á völlinn er um 28 milljónir króna.

Umræðan um dekkjakurlið er grunn og æsingakennd segir formaður knattspyrnudeildar FH. Ekkert dekkjakurl er á knattspyrnuvöllum FH-inga.

Mikil umræða hefur verið um dekkjakurl á knattspyrnuvöllum undanfarnar vikur. FH-ingar eru nýbúnir að skipta um gras á Risanum, fótboltavelli félagsins í Kaplakrika.  

FH-ingar byggðu „Risann“ árið 2005 og ákváðu þá að velja ekki dekkjakurl eins og flestir notuðu. Þeir keyptu efni sem á þeim tíma var þrisvar sinnum dýrara en dekkjakurlið.

 

Jón Rúnar Jónsson formaður knattspyrnudeildar FH segir að þeir hafi fylgst með umræðunni á sínum tíma um dekkjakurlið en ákveðið að velja annað efni.

„Við sem erum í tengslum við iðkendurna verðum að hugsa um hag þeirra og svo endist þetta efni sem við völdum miklu betur en dekkjakurlið“.

Hvað finnst þér um umræðuna um dekkjakurlið? „Mér finnst hún svolítið grunn og æsingakennd eins og oft er hér á Íslandi en ég skil hana. Það er óþægilegt að vera með kurlinu, það hefur þann eiginleika að leggjast ekki eins vel ofan í svörðinn.  Þess vegna skapar þetta bæði lykt og þetta er óþægilegt en ég að að það sé allt of mikill æsingur í þessu. Í dag er þetta heilbrigða kurl svona helmingi dýrara en dekkjakurlið“.

Jón Rúnar segir að kostnaðurinn við að leggja nýtt gervigras á „Risann“ í Kaplakrika sé um 28 milljónir króna.  Hann er óánægður með að ríkið hirði virðisaukaskattinn .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×