Erlent

Segir mögulegt að enginn Repúblikani nái meirihluta

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Ryan.
Paul Ryan. Vísir/Getty
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, telur líklegt að mikið verði deilt á flokksþingi Repúblikana í sumar. Nái enginn frambjóðandi 1.237 kjörfulltrúum, sem þarf til að ná hreinum meirihluta, verður frambjóðandi Repúblikana valinn á flokksþingi í Cleveland í júlí.

Donald Trump, sem er fremstur meðal frambjóðenda Repúblikana hefur hótað því að óeirðir verði víða um Bandaríkin, reyni forsvarsmenn Repúblikana að taka tilnefninguna af honum. Sem talið er ljóst er að þeir vilja gera.

Ekki er víst að Trump geti náð hreinum meirihluta, en hann mun að öllum líkindum vera með flesta kjörfulltrúa.

Samkvæmt frétt Reuters sagði Paul Ryan í dag að Repúblikanar þyrftu að undirbúa sig fyrir þann möguleika að Trump næði ekki meirihluta. Ryan mun stýra þinginu og segist ætla að rifja upp allar reglur og hefðir varðandi það.

Velgengni Donald Trump hefur valdið miklum deilum innan Repúblikanaflokksins. Síðustu vikur hafa fjölmargar fregnir borist af því að valdamiklir menn innan flokksins hafi fundað um hvernig hægt væri að koma í veg fyrir sigur Trump. Miklum fjármunum hefur þegar verið varið í sjóði sem notaðir eru til að birta neikvæðar auglýsingar um Trump.

Fyrrverandi forseti þingsins, John Boehner, stakk nýverið upp á því að Paul Ryan yrði forsetaefni Repúblikana, en Ryan segist ekki hafa áhuga á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×