Fótbolti

Freyr: Við spiluðum ekki vel og skoruðum ekki mark

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, tók ekki undir hrós í garð stelpnanna frá spyrli á blaðamannafundi á Algarve-mótinu í gær.

Stelpurnar okkar hefja leik á mótinu í dag þegar þær mæta Belgíu klukkan 15.00, en stefnan er sett á gullið eins og kom fram í viðtali Fréttablaðsins við Dagnýju Brynjarsdóttur í dag.

„Í fyrra sagðist þú vera með mjög ungt lið en Ísland spilaði mjög vel. Við hverju megum við búast í ár?“ var spurningin sem Freyr fékk á fundinum í gær þar sem þjálfarar liðanna í A-riðli sátu fyrir svörum.

Það stóð ekki á svari hjá Frey: „Við spiluðum ekki það vel. Við skoruðum ekki mark í fyrra. Það þarf að byrja á því að skora mark,“ svaraði þjálfarinn, en SportTV er statt á Algarve-mótinu og birti myndband af fundinum. Það má einnig sjá í spilaranum hér að ofan.

Íslenska liðið hafnaði í níunda sæti eftir að ná aðeins í eitt stig eftir markalaust jafntefli gegn Bandaríkjunum, en liðið kom boltanum aldrei í mark andstæðingsins.

„Á hverju ári viljum við njóta umgjarðarinnar sem er búin til hér. Það er búinn að vera erfiður vetur í Reykjavík og mikill snjór þannig við njótum þess að vera hérna og spila á góðum völlum,“ sagði Freyr.

„Við hlökkum til þess að reyna að vinna Danmörku einu sinni. Ég er mjög spenntur fyrir því að spila á móti Kanada líka sem við höfum aldrei mætt áður. Við erum með háleit markmið en við ætlum að byrja á því að reyna að skora eitt mark,“ sagði Freyr Alexandersson.


Tengdar fréttir

Vilja að ég fljúgi beint frá Portúgal en ég fæ að fara heim

Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður kvennalandsliðsins í fótbolta, vill að stelpurnar okkar byggi ofan á góða spilamennsku liðsins og vinni helst Algarve-mótið sem hefst í dag. Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik mótsins. Dagný rétt fær að koma heim og pakka í tösku eftir mótið áður en nýtt ævintýri hefst í Portland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×